Sveik 50 milljónir undan skatti

Sérstakur saksóknari hefur ákært karlmann á sextugsaldri fyrir meiriháttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum, en maðurinn stóð ekki skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélags og fyrir að standa skil á efnislega röngum skattframtölum. Samtals nemur fjárhæðin 50 milljónum króna.

Ákæran gegn manninum er í tveimur liðum. Í þeim fyrri er hann sakaður um að hafa, sem daglegur stjórnandi einkahlutafélags sem sérhæfði sig í húsamálum, ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar 2009 til og með september-október rekstrarárið 2010 og hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem var innheimtur í starfseminni. Samtals nemur fjárhæðin 21 milljón króna. 

Þá lét maðurinn undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald vegna einkahlutafélagsins rekstrarárin 2009 og 2010.

Í öðrum lið ákærunnar er maðurinn ákærður fyrir meiriháttar skattalagabrot með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2010 og 2011 vegna tekjuáranna 2009 og 2010. Hann lét undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum vegna fyrrgreindra ára, tekjur í formi eigin úttekta úr einkahlutafélaginu, sem eru skattskyldar sem tekjur samkvæmt lögum um tekjuskatt. Með þessu komst maðurinn hjá að greiða um 30 milljónir króna í tekjuskatt og útsvar. 

Brot mannsins varða m.a. við 262. gr. almennra hegningarlaga, en það getur varðað allt að sex ára fangelsi.

Þess er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. 

Málið gegn manninum verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert