11 karlar og 5 konur í lögregluskólann

Frá útskrift Lögregluskólans í desember 2013.
Frá útskrift Lögregluskólans í desember 2013. mbli.is/Ómar Óskarsson

16 nýnemar hófu þann 1. september nám á við grunnnámsdeild Lögregluskóla ríkisins. Nám við grunnnámsdeildina skiptist í bóknám og starfsnám, heildarlengd námsins skal vera að lágmarki tólf mánuðir og þar af skulu a.m.k. fjórir mánuðir vera starfsnám hjá lögreglunni. Þetta kemur fram á vef lögreglunnar.

Frétt mbl.is: Aðeins um 15% komast að lögregluskólanum

Eins og mbl.is hefur greint frá var framtíð grunnnáms við lögregluskólann í lausu lofti eftir að starfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins lagði til að lögreglunám yrði á háskólastigi.

Frétt mbl.is: Lögreglunám verði á háskólastigi

Af þeim nýnemum sem teknir voru inn hafa 10 starfað sem afleysingamenn í lögreglunni, allt frá þremur mánuðum til tæplega 20 mánaða. Meðalaldur nýnemanna er 25,5, í hópum eru 11 karlar (68,25%) og 5 konur (31,25%).

Síðast þegar nýnemar voru teknir inn í skólann voru hlutföllin öfug, en þá voru 11 konur og 5 karlar teknar inn í lögregluskólann.

Frétt mbl.is: Fleiri konur en karlar í lögregluskólanum

Sú staða hafði ekki komið upp áður að fleiri konur voru við nám í grunndeild Lögregluskólans en karlar. Gunnlaugur V. Snævarr, þáverandi formaður valnefndar Lögregluskóla ríkisins, sagðist í samtali við mbl.is á þeim tíma telja að þessi mikla fjölgun kvenkyns umsækjenda sé vegna þeirrar umræðu sem hefur verið undanfarið um stöðu kvenna innan lögreglunnar og vegna hvatningar ráðamanna til kvenna um að sækja um skólavist.

Frétt mbl.is: Konurnar einfaldlega í betra formi

Menntun innan hópsins sem tekinn var inn í skólann í september er margvísleg. Nýnemarnir hafa til dæmis stundað nám, um skemmri eða lengri tíma, í félagsráðgjöf, knattspyrnuþjálfun, félagsfræði, afbrotafræði, lögfræði, íþrótta- og heilsufræði, sálfræði, ensku, rafiðn, jarðfræði, húsgagnasmíði og húsasmíði. Þá eru í hópnum einstaklingar sem hafa lokið námi sem veitir þeim réttindi sem einkaflugmaður, vélstjóri, kafari, fangavörður, sjúkraflutningamaður og slökkviliðsmaður.

14 nýnemanna hafa lokið stúdentsprófi, sjö hafa lokið BA eða BSc háskólanámi og tveir þeirra hafa að auki lokið meistaranámi. Í hópnum er einn húsasmíðameistari.

Starfsreynsla nýnemanna er af ýmsum toga og sem dæmi má nefna að þeir hafa starfað við þjálfun í líkamsrækt, körfuknattleik, knattspyrnu og handknattleik; umönnun fatlaðra og geðsjúkra; sundlaugarvörslu; stundakennslu í grunnskóla; sölumennsku; akstur sendi- og leigubifreiða; leiðsögumennsku; búmennsku; fangavörslu og hestatamningar.

Meðal þess sem nýnemarnir hafa sem áhugamál eru golf, tónlist, hjólreiðar, skotveiði, hestamennska, líkamsrækt, lestur, matreiðsla, garðrækt, stangveiði, köfun, ferðalög, hundaþjálfun og matreiðsla eins og segir í tilkynningu lögreglunnar.

Frá útskrift Lögregluskólans í desember 2013.
Frá útskrift Lögregluskólans í desember 2013. mbl.is/Ómar Óskarsson
Karl Gauti Hjartarson, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins og Eiríkur Hreinn Helgason, …
Karl Gauti Hjartarson, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins og Eiríkur Hreinn Helgason, deildarstjóri framhaldsdeildar Lögregluskóla ríkisins. Ljósmynd/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert