Andlát: Gísli Thoroddsen

Gísli Thoroddsen
Gísli Thoroddsen

Gísli Thoroddsen matreiðslumeistari lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi, 2. september sl., 65 ára að aldri.

Gísli fæddist í Reykjavík 6. desember 1949, sonur hjónanna Odds Birgis Thoroddsen skipstjóra og Hrefnu Gísladóttur Thoroddsen, húsfreyju og félagsmálafrömuðar.

Gísli ólst upp á Ásvallagötunni í Vesturbæ Reykjavíkur. Hann lauk námi í matreiðslu árið 1971 á veitingahúsinu Brauðbæ og sótti sér síðan starfsreynslu til Danmerkur í tvö ár, vann m.a á Balkonen í Tívolí, Sheraton, Grand Hótel og Hótel Codan. Er heim kom varð hann fljótlega yfirmatreiðslumaður á Brauðbæ sem seinna varð Hótel Óðinsvé. Árið 1991 hóf hann veitingarekstur í Perlunni ásamt öðrum og sinnti þeim starfa fram á vor á þessu ári, eða á meðan heilsan leyfði.

Á áttunda og níunda áratugnum fór hann utan í matreiðslukeppnir og vann til fjölda verðlauna og átti síðar eftir að þjálfa nemalandslið Íslands. Hann átti eftir að útskrifa og leiðbeina hundruðum matreiðslunema og var sveinsprófsdómari á árunum 1984 – 1996.

Gísli sinnti matreiðslustörfum í opinberum veislum fyrir frú Vigdísi Finnbogadóttur forseta í tólf ár og sem slíkur eldaði hann ofan í fjölda þjóðhöfðingja um allan heim. Hann var meðlimur í Club des Chefs des Chefs (Alþjóðleg samtök matreiðslumanna þjóðhöfðingja), í Klúbbi matreiðslumeistara og í Félagi matreiðslumanna og sinnti ýmsum félags- og ábyrgðarstörfum á þeim vettvangi. Gísli fór sem gestakokkur hjá Cunard skipafélaginu í ferð árið 1996 og kynnti sér matreiðsluhætti í skólum og á hótelum í Grænlandi í þremur ferðum þangað. Þá hafa uppskriftir eftir Gísla birst í Gestgjafanum.

Gísli var skáti á yngri árum og studdi við starf þeirra alla tíð. Hann var mikill áhugamaður um bridge og skák og sinnti þeim áhugamálum í gegnum klúbba sem hann og æskufélagar hans stofnuðu til á tvítugsaldri.

Eftirlifandi eiginkona Gísla er Bryndís Þorbjörg Hannah og börn þeirra eru þau Arnar Eggert, Curver og Eva Engilráð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert