Bjóða út flugmiðakaup ríkisins

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Stefnt er að því að bjóða út farmiðakaup starfsmanna stjórnarráðsins innan skamms. Vilji er til að komast í veg fyrir vildarpunktasöfnun ríkisstarfsmanna, segir í frétt Túrista.

Kærunefnd útboðsmála komst að þeirri niðurstöðu að kaup hins opinbera á flugmiðum væru það umfangsmikil að leita þyrfti tilboða í þau á nýjan leik. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkiskaupum er þess háttar útboð nú í vinnslu og stefnt er að því að bjóða út öll flugmiðakaup stjórnarráðsins síðar í þessum mánuði. 

Fjögur og hálft ár eru liðin frá því að ríkið bauð síðast út kaup sín á farmiðum og þá bárust tilboð frá Icelandair og Iceland Express og var þeim báðum tekið. Forsvarsmenn Iceland Express kærðu seinna þá niðurstöðu og sögðust lítil viðskipti hafa fengið frá hinu opinbera þrátt fyrir samninginn.

Um síðustu áramót leitaði danska ríkið tilboða í farmiðaviðskipti sín til 178 áfangastaða. Var samið við eitt til þrjú flugfélög um hverja flugleið og samkvæmt upplýsingum frá SKI, dönsku innkaupastofnuninni, verða opinberir starfsmenn í Danmörku í öllum tilvikum að velja ódýrasta miðann sem býðst á hverri flugleið og mega þeir aðeins beina viðskiptum til þeirra flugfélaga sem SKI samdi við.

Öll kaup á farmiðum fara í gegnum ferðaskrifstofur sem fá greiddar þóknanir fyrir sína vinnu. Aðeins flugfélög sem bjóða upp á beint flug, tvisvar til þrisvar í viku gátu boðið í hverja flugleið. Félög sem geta boðið upp á tengiflug gátu einnig gert tilboð en þá verða þau að tryggja að ferðatíminn sé innan ákveðinna marka. Athygli vekur að af Ísland var ekki einn af þeim 178 áfangastöðum sem danska innkaupastofnunin bauð út. Af því að dæma eiga danskir ríkisstarfsmenn ekki oft erindi til Íslands, segir ennfremur í frétt Túrista.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert