„Hér er verið að fela hlutina“

Þessi mynd sýnir fugl í of litlu búri.
Þessi mynd sýnir fugl í of litlu búri. Ljósmynd/ facebook.com/arni.stefan

VARÚÐ - Myndir með fréttinni gætu vakið óhug

„Það er hafið yfir allan vafa að það sem sést á þessum myndum er beinlínis saknæmt,“ segir Árni Stefán Árnason, lögfræðingur um myndir sem honum bárust frá fyrrverandi starfsmanni Dýraríkisins og hann birti á Facebook í dag.

Starfsfólk Dýraríkisins hafnar ásökunum um slæman aðbúnað dýranna og segir framkvæmdastjóri verslunarinnar að starfsmaðurinn sé að hefna sín. Rannsókn Matvælastofnunar sýndi þó ýmis frávik frá lögum og reglum um aðbúnað dýra, meðal annars að smádýr væru drepin með klóróformi.

Meinað að fara til dýralæknis

Meðal þess sem sjá má á myndunum er fugl sem hefur reitt af sér nær allar fjaðrir á neðri hluta líkamans, hamstur sem hefur verið bitinn til blóðs af öðru dýri og naggrísaunga sem drápust við fæðingu. Segir starfsmaðurinn að sér hafi verið meinað að fara með móður þeirra til dýralæknis þrátt fyrir skýrar leiðbeiningar frá dýralækni um að koma með dýrið tafarlaust. Naggrísinn drapst sjálfur skömmu eftir fæðinguna að sögn Árna. 

„Hér er verið að fela hlutina og það er búið að gera það í langan tíma. Þetta er skýrt brot á lögum og ég gagnrýni Matvælastofnun sérstaklega fyrir að sinna ekki eftirliti í gæludýraverslunum betur.“

Auk fyrrgreindra atriða má á myndunum sjá fugl sem hefur verið bitinn í vænginn þannig að fjaðrirnar brotnuðu, of lítil búr og mikinn óþrifnað.

„Matvælastofnun hefur valdheimildir til að stöðva svona tafarlaust. En hún virðist ekki beita þeim,“ segir Árni. „Það er hnökri í lögunum að bara sú stofnun hafi heimild til að kæra. Matvælastofnun er búin að gera athugasemdir við [aðstæður dýranna] og eigandi Dýraríkisins fékk fjögurra vikna andmælafrest. Það er út í hött, þarna á að grípa tafarlaust inn í.“

Hamsturinn er með slæmt sár eftir að hafa verið bitinn …
Hamsturinn er með slæmt sár eftir að hafa verið bitinn af öðru dýri. Ljósmynd/ facebook.com/arni.stefan

Þrif voru í verkahring starfsmannsins

 Starfsfólk Dýraríkisins hafði ekki séð myndirnar þegar mbl.is hafði samband við Gunnar Vilhelmsson, framkvæmdastjóra verslunarinnar. Eftir að hafa fengið þær sendar gat starfsmaður hennar staðfest við blaðamann mbl.is að í það minnsta nokkrar þeirra hefðu verið teknar þar.

Auk Gunnars ræddi blaðamaður mbl.is við tvo starfsmenn verslunarinnar. Þeir sögðu óþrifnaðinn í búrunum skrifast á starfsmanninn sem sendi Árna myndirnar og annan starfsmann sem ekki starfar hjá versluninni lengur enda hafi það verið í þeirra verkahring að þrífa þau. Sömuleiðis sögðu þeir að starfsmennirnir hefðu sett fugla í of lítil búr af ástæðulausu þar sem nóg hafi verið til af stærri búrum fyrir dýrin baka til.

Gunnar og starfsmennirnir tveir voru í merkjanlegu uppnámi á meðan á símtalinu stóð og gekk síminn á milli þeirra. Annar starfsmannanna kvað fuglinn sem er reittur að neðan á einni myndinni hafa komið þannig í verslunina af heimili en vildi ekki gefa frekari skýringar á hvernig fjaðrirnar hefðu farið. Hinn sagði fuglinn með brotnu fjaðrirnar einnig hafa komið slasaðan í Dýraríkið og að þurft hafi að svæfa hann þegar ljóst var að ekki væri hægt að hjálpa honum.

Hvað naggrísinn varðar segir Gunnar starfsmanninn hafa hringt í sig og að hann hafi þá samstundis haskað sér niður í búð. Þegar þangað var komið hafi fæðingin verið yfirstaðin, ungarnir dauðir og að það eina sem var hægt að gera hafi verið að veita móðurinni næringu og næði. Því hafi hann stoppað starfsmanninn í að fara með naggrísinn til dýralæknis. Hann segir starfsmanninn aldrei hafa sagt neitt um fyrirmæli dýralæknisins og að naggrísinn sé enn á lífi þrátt fyrir erfiða fæðingu.

Naggrísinn og ungarnir sem drápust í fæðingu.
Naggrísinn og ungarnir sem drápust í fæðingu. Ljósmynd/ facebook.com/arni.stefan

Segir starfsmanninn vera að hefna sín

„Þegar ég spurði hana af hverju hún hefði gert þetta sagði hún að þennan dag, þegar ég stoppaði hana af hafi ég neitað henni um að fara í mat og þess vegna hefði hún ákveðið að gera þetta,“ segir Gunnar um starfsmanninn. „Hún hafði í fyrsta lagi verið reið út af þessu með naggrísinn en þar sem hún var yfir fæðingunni þá komst hún einfaldlega ekki í mat. Það var nóg fyrir hana til að gera þetta.“

Gunnar hefur rekið Dýraríkið í 36 ár og segist leggja mikið upp úr því að viðskiptavinir sínir fái fræðslu um umönnun dýranna, mun meira en hann leggi upp úr gróða. 

„Fólk sem hingað kemur þakkar okkur alltaf fyrir góð ráð og aðstoð en ein svona drullusletta getur eyðilagt allt sem er hér búið að byggja upp. Ég er bara virkilega sár. Þetta sem heitir mannkærleikur, og ég reyni að leggja mikla rækt við hann, á undir högg að sækja því miður.

Árni birti þessa mynd fyrir skömmu á Facebook og segir …
Árni birti þessa mynd fyrir skömmu á Facebook og segir þær sýna aflífun hamstra með klóróformi. Ljósmynd/ facebook.com/arni.stefan

Dýr drepin með klóróformi

Matvælastofnun fór í eftirlitsferð á föstudag í kjölfar tilkynningar starfsmannsins. Konráð Konráðsson, héraðsdýralæknir Suðvesturumdæmis segir ýmislegt hafa komið upp sem renni stoðum undir frásögn hans. Stofnunin geri athugasemdir við allt sem bregði út af reglugerð og lögum um velferð dýra og að slík frávik hafi sannarlega komið í ljós hjá Dýraríkinu.

Meðal þeirra frávika sem Matvælastofnun gerði athugasemd við var að smádýr væru drepin þar með klóróformi. Gunnar segir Matvælastofnun hafa dregið þá ályktun eftir að hafa fundið gamla klóróform flösku inni í skáp baka til en Konráð hefur hinsvegar aðra sögu að segja.

„Við fengum þetta upplýst á staðnum af starfsfólki, að þetta væri gert með þessum hætti. Við gerðum athugasemd við það sem frávik enda má það ekki,“ segir Konráð. „Þetta snýst um þetta lyf, þetta snýst um almennt útlit dýranna, búrastærðir, þrifnað og fleira í þeim dúr.“

Á meðan á vinnslu fréttarinnar stóð birti Árni Stefán aðra mynd á Facebook sem sögð er sýna aflífun hamstra með klóróformi. Gunnar stendur hinsvegar fast við að hvorki hann né aðrir starfsmenn verslunarinnar kannist við að slíkt hafi verið gert í versluninni og kann hann engar skýringar á myndinni aðrar en að hún sé uppstillt. Aðeins dýralæknar mega aflífa gæludýr, nema í neyðarvikum.

Konráð segir að verði frávikunum ekki sinnt fái Dýraríkið frest til að sinna þeim. 

„Ef þeim er enn ekki sinnt fer málið í eðlilegan feril inn á stjórnsýslusvið hjá okkur þar sem lögfræðingar taka við málinu.“

Fuglinn hefur reitt af sér fjaðrirnar að neðan.
Fuglinn hefur reitt af sér fjaðrirnar að neðan. Ljósmynd/ facebook.com/arni.stefan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert