Íþróttafræðin fari til Reykjavíkur

Laugarvatn
Laugarvatn mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lagt er til í skýrslu sem unnin var fyrir rektor Háskóla Íslands að allt grunnnám í íþrótta- og heilsufræði verði flutt til Reykjavíkur og skipulagt í samstarfi við Háskólann á Akureyri en í dag fer námið fram á Laugarvatni. Þrjár aðrar sviðsmyndir eru settar fram verði þessi leið ekki farin varðandi framtíð námsins. Önnur sviðsmyndin gerir ráð fyrir að námið verði til Reykjavíkur án samstarfs við HA, sú þriðja að námið verði áfram á Laugarvatni með breyttu sniði og fjórða sviðsmyndin að námið verði ekki lengur í boði á vegum Háskóla Íslands.

Fram kemur í skýrslunni að við mat á sviðsmyndunum hafi meðal annars verið hafðir til hliðsjónar möguleikar á að auka aðsókn nemenda í íþrótta- og heilsufræði, bæta námið og stuðla að hagkvæmari rekstri en nú er, auk þess sem stjórnmálalegir þættir voru til skoðunar. Ókostirnir við núverandi staðsetningu námsins að Laugarvatni eru samkvæmt skýrslunni meðal annars mikil fækkun nemenda og brottfall og að nemendur setji fyrir sig staðsetninguna vegna fjarlægðar námsins frá skipulagðri íþróttastarfsemi.

Boðið verði upp á blandað nám í stað staðbundins

Verði ákveðið að bjóða áfram upp á námið á Laugavatni er lagt til í skýrslunni að ráðist verði í verulega breytingar á skipulagi þess. Lagt er til að náminu verði breytt í blandað nám í stað staðnáms. Með því skapist möguleikar á að ná til stærri hóps nemenda. Þar á meðal íþróttafólks sem stundar keppnisíþróttir og vill vera í tengslum við þjálfara sína, félaga og íþróttaaðstöðu í grein sinni samhliða námi. Þá veiti þetta fyrirkomulag möguleika á að ná betur til nemenda sem búi á höfuðborgarsvæðinu og einnig til þeirra sem búsettir séu á landsbyggðinni.

„Jafnframt verði boðið upp á styttri námsleiðir í íþrótta- og heilsufræði, þar með talið diplómanám, til að mynda í íþróttaþjálfun, útivist og heilsurækt, sem hægt væri að byggja ofan á til að ljúka námi á háskólastigi. Möguleikar á valnámskeiðum og tenging námsins við aðrar fræðigreinar þyrftu að aukast frá því sem nú er,“ segir í skýrslunni. Nýting húsnæðis yrði einnig breytt. Nemendur kæmu í námslotur í verklegri þjálfur og bóknáms á Laugavatni í stað fastrar búsetu á staðnum allt skólaárið. Breytt nýting húsnæðisins skapaði tækifæri fyrir aðrar greinar til þess að nýta núverandi húsnæði líkt og ferðamálafræði.

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert