Von Trotta heiðursgestur RIFF

Margarethe von Trotta
Margarethe von Trotta

Þýski kvikmyndaleikstjórinn Margarethe von Trotta verður heiðursgestur á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, ásamt kanadískum starfsbróður sínum David Cronenberg. Von Trotta var meðal upphafsmanna endurreisnarinnar í þýskri kvikmyndagerð, þýsku nýbylgjunnar, á 7. og 8. áratugnum og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir kvikmyndir sínar á hátíðum víða um heim.

Þrjár af þekktustu myndum hennar verða sýndar á RIFF, Die bleierne Zeit(1981) sem hlaut m.a. sex verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum árið 1981 og Rosenstrasse (2003) sem hlaut þrenn verðlaun á sömu hátíð árið 2003. Jafnframt verður sýnd mynd von Trotta þá nýjustu, Die Abhandene Welt (2015), sem frumsýnd var á kvikmyndahátíðinni í Berlín í ár og hlaut mikið lof gagnrýnenda.

Ferskir vindar

Í tilkynningu frá RIFF segir að von Trotta hafi komið með ferska vinda í kvikmyndaheiminn þar sem hún hafi skoðað samtímamálefni með tilraunakenndum aðferðum í kvikmyndum sínum. Flóknar tæknilegar útfærslur hafi vikið fyrir persónusköpun og listrænt frelsi blómstrað á yfirborðinu. Von Trotta hafi á ferli sínum skrásett sögu kvenna í Þýskalandi, bæði með heimildarmyndum og leiknum kvikmyndum, skapað djúpar og fjölskrúðugar kvenpersónur.

Von Trotta segist ekki hafa fengið áhuga á kvikmyndagerð fyrr en franska nýbylgjan leit dagsins ljós. „Nýbylgjan í kvikmyndagerð var ekki komin til Þýskalands þegar ég var að alast upp og í boði voru allar þessar kjánalegu kvikmyndir. Fyrir mér var bíó aðeins afþreying en ekki list. Þegar ég kom til Parísar og sá myndir eftir Ingmar Bergman gerði ég mér grein fyrir möguleikum kvikmynda,“ er haft eftir von Trotta. Eftir að hafa horft á kvikmyndir Alfred Hitchcock og frönsku nýbylgunnar hafi hún ákveðið að gerast kvikmyndaleikstjóri. „Þetta var árið 1962 og óhugsandi að kona gæti orðið leikstjóri. Upp frá því, algjörlega ómeðvitað, byrjaði ég að leika og svo þegar þýska nýbylgjan hófst reyndi ég að koma mér inn í hana í gegnum leiklistina,“ segir von Trotta.

Bessastaðir, masterklassi og spurt og svarað

RIFF hefst 24. september og verða von Trotta afhent heiðursverðlaun hátíðarinnar, fyrir ævistarf sitt og framlag til kvikmyndagerðar, á Bessastöðum 30. september sem og David Cronenberg. Elísabet Ronaldsdóttir klippari mun stýra masterklassa fyrir kvikmyndagerðarmenn með von Trotta 29. september og von Trotta mun auk þess svara spurningum bíógesta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert