Framlög aukin til allra málaflokka

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, við setningu 145. löggjafarþings.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, við setningu 145. löggjafarþings. mbl.is/Styrmir Kári

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í setningarræðu sinni við upphaf 145. löggjafarþings Alþingis að framlög verði aukin til allra mikilvægustu málaflokkanna, þrátt fyrir að íslenska ríkið verði rekið með afgangi.

„Framlög til heilbrigðismála hafa aldrei verið jafnmikil, það sama á við um framlög til nánast allra velferðarmála, félagsmála og almannatrygginga,“ sagði Sigmundur í ræðu sinni. Sagði hann hreina aukningu framlaga til heilbrigðis- og félagsmála á kjörtímabilinu nema 26 milljörðum króna.

„Þetta samsvarar því að hálfur Landsspítali hafi bæst við velferðarútgjöldin á kjörtímabilinu. Allar líkur eru á því að svigrúm verði til að gera betur á næstu árum.“

Sigmundur sagði að með losun fjármagnshafta og uppgjöri slitabúa bankanna muni staða ríkissjóðs og möguleikinn til að standa undir grunnþjónustu batna til mikilla muna.

„Þótt þau hundruð milljarða sem stöðugleikaframlag eða stöðugleikaskattur mun  skila verði ekki nýtt í framkvæmdir mun leiðrétting á stöðu ríkissjóðs þýða að við getum byggt upp hraðar, þar sem vaxtagjöld munu minnka.“

Yrði 10. stærsta sveitarfélag landsins

Sigmundur sagði að ríkisstjórnin hyggist ráðast í átak með byggingu allt að 2.300 félagslegra leiguíbúða á árunum 2016 til 2019 sem er hluti af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga í lok maí sl.

„Það er jafnmikill fjöldi íbúða og allar íbúðir á Egilsstöðum og Ísafirði samanlagt. Ef stofnað væri sérstakt sveitarfélag um íbúðirnar, sem stendur þó ekki til, yrði það 10. stærsta sveitarfélag landsins,“ sagði Sigmundur og bætti við að með nýju íbúðunum sé einkum komið til móts við fólk í lægstu tveimur tekjufimmtungunum.

Hagnaðarvon með ódýrum og óaðlaðandi byggingum ráði ekki för

Að sögn Sigmundar þarf að haga aðstæðum rétt þannig að ávinningur verði sem mestur af ferðaþjónustunni og að ekki megi ráða för hagnaðarvon til skamms tíma með ódýrum og óaðlaðandi byggingum og niðurtroðinni náttúru.

„Unnið er að samræmdri stefnu í ferðamálum. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur verið efldur til muna og ríkisstjórnin leggur áherslu á einföldun regluverks fyrir greinina og atvinnulífið almennt,“ sagði Sigmundur. Sagði hann mörg smærri fyrirtæki hafa þurft að eyða óþarflega miklum tíma og fyrirhöfn í flókið regluverk.

Unnið er að því að koma upp einni gátt svo að hægt verði að sækja um öll leyfi og skila öllum gögnum á einum stað,“ sagði hann.

„Endurskoðun stjórnarskrárinnar miðar vel“

Endurskoðun stjórnarskrárinnar miðar vel og útlit er fyrir að samstaða geti náðst um veigamiklar og mikilvægar breytingar á henni að sögn Sigmundar, m.a. um ákvæði um auðlindir og sögulegar breytingar í átt að stórauknu lýðræði.

Hvatti hann til góðrar samvinnu allra flokka um framhaldið.

Tilkynning á vef forsætisráðuneytisins

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert