Skýringarnar ekki í leikreglunum

Einar K. Guðfinnsson er forseti Alþingis.
Einar K. Guðfinnsson er forseti Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Nú þegar Alþingi kemur saman að nýju eftir óvenjustutt sumarhlé frá þingfundastörfum bíða okkar margvísleg verkefni, sagði Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, við setningu þingsins í morgun.

„Vitaskuld verða pólitísk átök um ýmis þau mál sem þingið tekst á við. Það er gangur stjórnmálanna og endurspeglar mismunandi viðhorf sem eðlilegt er að leidd séu fram í umræðu í opnu lýðræðislegu þjóðfélagi. Alþingi er slíkur vettvangur enda hornsteinn okkar samfélags.“

 Einar sagði að þingið hefði á þessu kjörtímabili unnið að endurskoðun á þingsköpunum. „Þetta starf hefur orðið tafsamara en ég hugði. Það þarf þó alls ekki að vera alslæmt. Einmitt vegna þess að þessi vinna stendur enn yfir gefst okkur nú tækifæri til þess að læra af reynslunni, ekki síst reynslu síðasta þings. Á þetta mun reyna nú í vetur. Veit ég að þingmenn vilja leggja sig fram um þetta verkefni enda okkur ljóst að mikið er í húfi að vel takist til.  Við eigum ekki og megum ekki nálgast þetta viðfangsefni sem stjórn og stjórnarandstaða, minni hluti eða meiri hluti. Við hljótum einfaldlega að takast á við verkefnið sem þjóðkjörnir alþingismenn og af virðingu og metnaði fyrir löggjafarsamkomunni.“

Einar sagði að þau þingsköp sem við búum við séu ekki ósvipuð þeim sem gilda t.d. á Norðurlöndunum. „Það er því býsna mikið umhugsunarefni að þinghaldið hjá okkur er oft og tíðum býsna frábrugðið því sem þar tíðkast,“ sagði Einar. „Skýringanna hlýtur því að vera að leita annars staðar en í leikreglunum sem við höfum leitt í lög. Þetta hefur verið mér talsvert umhugsunarefni á síðustu mánuðum og við hljótum öll að velta þessu fyrir okkur. “

Forsætisnefnd hefur ákveðið að leggja fram í þingbyrjun að nýju tillögu sína um siðareglur fyrir alþingismenn. Sú tillaga var lögð fram undir lok síðasta þings í samkomulagi allra flokka. „Vegna þess ástands er þá ríkti í þinghaldinu tókst ekki að afgreiða málið, en ég vænti þess að okkur takist að ljúka því verki snemma á þessu haustþingi.“

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti …
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands við þingsetninguna í morgun.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert