Ætti að taka mið af Exeter-dómi

Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari málsins.
Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari málsins. Eggert Jóhannesson

Við ákvörðun mögulegrar refsingar í Marple-málinu ætti að horfa til dómafordæmis þar sem sakfelldir fengu fjögurra og hálfs árs dóm fyrir mun lægri upphæð en um ræðir í þessu máli. Þetta sagði Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari, í málflutningi sínum í dag, en þar var vísað til Exeter-málsins svokallaða, þar sem sparisjóðsstjóri og stjórnarformaður Byrs sparisjóðs voru dæmdir fyrir umboðssvik.

Í Marple-málinu eru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrum fjármálastjóri bankans og Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik, eða hlutdeild í slíkum brotum. Auk þess er fjárfestirinn Skúli Þorvaldsson ákærður fyrir hylmingu og peningaþvott.

Fengu 4,5 ár fyrir 1,5 milljarða - Í þessu máli horft til 8 milljarða

Arnþrúður fór yfir dóma sem Hreiðar Már og Magnús höfðu hlotið áður og sagði svo að engin fordæmi væru fyrir brotum af þessari stærðargráðu hér á landi þegar kæmi að umboðssvikum. Í þessu máli er í heild um að ræða um 8 milljarða króna fjármagnsflutninga sem saksóknari og slitabú Kaupþings telja vera ólöglega gjörninga sem hafi skaðað bankann sem því nemur. Í Exeter-málinu var hins vegar um að ræða heimild til 1,5 milljarða útláns sem Hæstiréttur sagði í því máli að sakfelldu í því máli hafi misnotað aðstöðu sína og gengið gegn lánareglum bankans.

Refsiramminn 6 ár

Refsirammi í umboðssvika- og fjárdráttamálum er sex ár, en saksóknari benti dómara á að lagaheimild væri til að auka refsingu umfram refsiramma um 50% ef um síendurtekin brot væri að ræða. Saksóknari í stóra umboðssvikamálinu lagði einnig fram þá kröfu fyrr í ár að sú heimild væri nýtt, en héraðsdómurinn var innan almenna refsirammans.

Guðný Arna ásamt verjendum.
Guðný Arna ásamt verjendum. Árni Sæberg
Hreiðar Már Sigurðsson.
Hreiðar Már Sigurðsson. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert