„Það vantar konur í háttsettar stöður innan fjölmiðlanna, þannig að ég er bara ánægð að ég geti gert pínulitla skrámu á þetta glerþak sem er yfir þeim,“ segir Ingibjörg Þórðardóttir fjölmiðlakona, sem tekur við ritstjórnartaumunum á alþjóðlegum vefsíðum CNN eftir viku.
Starfsheiti Ingibjargar verður „editorial and programming director“ en starfið felur m.a. í sér umsjón með 80 starfsmönnum og ritstjórnarlega ábyrgð á alþjóðlegum frétta- og íþróttasíðum, þ.e. þeim síðum sem birtast á skjám Íslendinga þegar þeir heimsækja cnn.com. Næsti yfirmaður Ingibjargar verður „vice president“ CNN Digital International, en hann sér um viðskiptahlið starfsemi deildarinnar.
Ingibjörg hefur starfað hjá BBC í 15 ár, nú síðast sem „front page editor“. Spurð að því hvernig nýja starfið sé ólíkt því gamla, segir hún mannaforráðin meiri og vefsíðurnar sem hún hefur umsjón með fleiri.
„BBC er náttúrulega rekið með afnotagjöldum en þetta er „commercial“ fyrirtæki og að því leytinu til er þetta mjög nýtt fyrir mér. Og ritstjórnarlega er CNN dálítið öðruvísi. Ég held að þeir séu að gera mjög góða hluti varðandi hvernig efni þeir vilja framleiða á stafrænum miðlum og ég held að þeir séu að reyna og gera hluti sem ég er samþykk; sem ég held að sé rétt að fara í. Fókusa dálítið á „original journalism“, eitthvað sem er aðeins öðruvísi en bara það sem er að gerast; daginn og veginn,“ segir hún.
Ingibjörg tekur kappræður forsetaefna repúblikana sem dæmi, en CNN helgaði vefmiðla sína því efni þegar þær stóðu yfir. Það sama var gert í tengslum við flóttamannaumræðuna. Ingibjörg segist mjög spennt að fá tækifæri til að taka þátt í þessari þróun, sem hún hefur talað fyrir hjá BBC.
„Hjá BBC ertu rosalega mikið að taka fréttir dagsins og skoða, og ég var búin að vera mikið að vinna í því að prófa að samþætta sjónvarp og stafræna miðla. Og það gekk mjög vel upp að vissu marki. En svo er oft erfiðara að ýta svona málum innan stofnanna eins og BBC, sem eru reknar á annan hátt. Þannig að ég er að vonast til að maður geti leyft sér að prófa aðeins meira og vera með hugmyndir um hvers konar fréttir maður á að vera með á stafrænum miðlum. Ég held að hjá CNN muni ég hafa meira frelsi til að gera það. Þannig að mér finnst þetta mjög spennandi.“
Stórt verkefni bíður Ingibjargar hjá CNN, þ.e. forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Hún segist spennt að fá að taka þátt í umfjöllun um þær hjá fyrirtæki sem sé „innsti koppur í búri“.
Ingibjörg fer eiginlega hjá sér þegar talið berst að því hversu virðulegt starfið er, en þess ber að geta að það voru forsvarsmenn CNN sem föluðust eftir starfskröftum hennar. „Þeir höfðu samband við mig fyrst, en þetta var langt og mikið ferli og mikið af viðtölum. Þetta var ekki eins og auðvelt og að þeir hringdu í mig og byðu mér vinnu,“ útskýrir Ingibjörg hógvær.
Þrátt fyrir að hafa merkt það í viðtölunum að stefna CNN Digital International rímaði vel við hennar eigin hugmyndir um stafræna miðlun frétta, lágu persónulegar ástæður til grundvallar ákvörðunar hennar um að söðla um.
„Þetta var bara persónuleg ákvörðun fyrir mig; að það væri kominn tími til að takast á við nýja áskorun og eitthvað nýtt sem væri að gerast. Og ég hef aldrei áður unnið hjá bandarískum fjölmiðli og CNN er náttúruelga eitt stærsta nafnið í fjölmiðlaheiminum í Bandaríkjunum,“ segir hún.
Það er óhjákvæmilegt að spyrja hvort afstaða breskra stjórnvalda til ríkisfjölmiðilsins hafi átt einhvern þátt í ákvörðun hennar um að kveðja BBC.
„Nei, alls ekki,“ svara Ingibjörg. „Ég er búin að vera þarna í 15 ár og maður hefur séð svona aðför að BBC áður og ég hef enga trú á öðru en að þeir rísi upp úr þessu sterkari en áður ef eitthvað er. Þetta er svo mikilvæg stofnun í Bretlandi, hún er svo virt og dáð af Bretum sjálfum, þannig að ég hef engar áhyggjur af því.“
Ingibjörg bendir á að vissulega megi alltaf „taka til“ og segist hafa trú á því að það verði gert. Hún hafi einnig trú á því að BBC muni marka stefnu sem muni leiða stofnunina inn í framtíðina og hún standi áfram styrkum fótum. „Ég held að þetta sé erfitt tímabil núna en ég hef ekki trú á að þetta verði langvarandi hættuástand hjá BBC.“