Horft til stjórnsýslustarfa Karls

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Kristinn

Lögmannsreynsla og reynsla af stjórnsýslu- og dómstörfum voru helstu ástæður þess að Karl Axelsson var talinn hæfari en tveir aðrir umsækjendur til að gegna starfi hæstaréttardómara að mati dómnefndar, jafnvel þó að hinir tveir umsækjendurnir hefðu meiri menntun og reynslu sem dómarar.

Í umsögn dómnefndar um þau Karl Axelsson, Ingveldi Einarsdóttur og Davíð Þór Björgvinsson kemur fram að þau séu öll hæf til þess að gegna starfi hæstaréttardómara. Ingveldur var talin standa fremst þegar litið var til reynslu af dómarastörfum, Davíð Þór á sviði menntunar en Karl þegar litið var til reynslu af lögmannsstörfum.

Þá er nefnd sérstaklega seta Karls í mikilvægum úrskurðarnefndum á stjórnsýslustigi um árabil en stjórnsýslustörf af þeim toga skipti verulegu máli samkvæmt reglum um val á hæstaréttardómurum. Þar hafi sérstaklega verið horft til „umfangsmikilla og vandasamra“ starfa hans fyrir óbyggðanefnd.

„Verður að öllu framangreindu gættu, og þá einkum vegna lögmannsreynslu, reynslu af stjórnsýslustörfum og dómstörfum, að telja Karl Axelsson hæfastan umsækjenda til að gegn starfi hæstaréttardómara. Að virtri þessari niðurstöðu eru ekki efni til að gera upp á milli hæfni annarra umsækjenda,“ segir í niðurstöðukafla umsagnar dómnefndarinnar.

Umsögn dómnefndarinnar um umsækjendurna þrjá

Fyrri frétt mbl.is: Karl metinn hæfastur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert