Þurfa að samræma getu og væntingar

Séð úr höfninni í Raufarhöfn sem er ein þeirra byggða …
Séð úr höfninni í Raufarhöfn sem er ein þeirra byggða sem Brothættar byggðir hefur tekið til. Silja Jóhannesdóttir

Í úttekt Ernst & Young á verkefninu Brothættar byggðir kemur í ljós talsvert misræmi milli þeirra væntinga sem íbúar í þeim sveitarfélögum sem verkefnið er starfandi í hafa til verkefnisins og þess sem verkefnið hefur bolmagn til þess að áorka og er í raun ætlað að gera. Þá er staða verkefnastjórnunar gagnrýnd, en hún er sögð hafa óskýrt hlutverk og lítil úrræði til þess að koma verkefnum í framkvæmd eða virka sem tengiliður milli heimafólks og ríkisstofnana.

Verkefnið var sett á laggirnar árið 2012 sem tilraunaverkefni Byggðastofnunar með það að markmiði að sporna gegn vítahring íbúafækkunar í ákveðnum byggðum. Verkefnið byrjaði á Raufarhöfn en við hafa bæst Bíldudalur, Breiðdalshreppur og Skaftárhreppur. Öll svæðin hafa upplifað mikla íbúafækkun frá aldamótum þar sem um 40-60% íbúa hafa flust á brott og þá sérstaklega ungt fólk. Verkefninu er ætlað að efla atvinnulífið á svæðunum án þess að það sé gert með beinni eða varanlegri íhlutun utan að frá.

Í skýrslunni er lögð áhersla á að verkefnið verði ekki víkkað út með því að taka inn margar fleiri byggðir. Fjárveitingar til verkefnisins séu of takmarkaðar til þess að hægt sé að ná árangri verði þeim dreift á fleiri staði og brýnt sé að afmarka hlutverk þess við mjög hætt komna staði.

Sigríður K. Þorgrímsdóttir, sérfræðingur hjá Byggðastofnun, hefur unnið við verkefnið en hún segir skýrsluna góða leiðsögn fyrir framhaldið. Hjá Byggðastofnun hafi áður farið fram ákveðið innra mat, þau hafi unnið talsvert með skýrsluhöfundi og þau séu ánægð með útkomuna og þá leiðsögn um framhaldið sem í skýrslunni sé að finna.

„Við erum að leggja drög að heildarverkefnalýsingu fyrir þetta verkefni til framtíðar og þetta kom því á góðum tíma. Það er þarna að finna bæði hluti sem gengu vel og annað sem mætti fara betur,“ sagði Sigríður. „Miðjan í verkefninu er þetta íbúaþing sem við héldum yfir tvo daga þar sem við reyndum að laða fram skoðanir og viðhorf íbúa á svæðunum. Það þótti takast vel og jók virkni íbúa en það sem vantaði upp á var eftirfylgni eftir íbúaþingin og sterk verkstjórn á bak við verkefnin.“ Þar hafi dregið kraft úr verkefnunum en Byggðastofnun hafi reynt að bregðast við því með því að ráða verkefnastjóra sem hafi umsjón með verkefnumn á ákveðnum svæðum. Þau úrræði hafi hins vegar takmarkast af þeim fjármunum sem séu til reiðu. Sum verkefni hafi einnig í raun heyrt undir aðrar ríkisstofnanir s.s. vegagerð og hafi lokið af hálfu Brothættra byggða með bréfsendinu til viðeigandi stofnana.

Í skýrslunni er einkennandi fyrir þá gagnrýni sem kemur fram á verkefnið að efndir hafi ekki verið í samræmi við væntingar í upphafi verkefnisins. Sigríður segist sýna því nokkurn skilning en verkefninu sé helst ætlað að virkja heimafólk frekar en koma að ofan með stórtækar aðgerðir. „Það skapar auðvitað ákveðnar þegar farið er af stað með svona verkefni og það koma að því ýmsir opinberir aðilar eins og Byggðastofnun, forsvarsmenn sveitarfélaga, atvinnuþróunarfélög og þvíumlíkt og það skapar ákveðnar væntingar um það hvað fólk fær út úr þessu, gjarnan í formi einhverra styrkja eða annarra fjárveitinga. Við reyndum að mæta þessu með því að segja strax að ekki væru miklir fjármunir til þetta verkefni og snerist frekar um samtal samfélagsins við stofnanir og stjórnsýslu.“

Þegar segir Sigríður vera búið að bregðast við hluta þeirrar gagnrýni sem kemur fram í skýrslunni, til að mynda með nýrri fjárhagsáætlun þar sem verkefnum sé úthlutað fé beint úr sjóðum. Gæta þurfi þó að því að vinna Brothættra byggða skarist ekki á við aðrar áætlanir ríkisins í byggðamálum eins og t.d. Sóknaráætlun landshluta. Þetta verkefni taki þó á sértækari vanda heldur en stærri og almennari áætlanir.

Of snemmt er að fullyrða um árangur verkefnisins á íbúaþróun en Sigríður telur þó verkefninu nokkra áfangasigra til tekna, bæði beina og óbeina. Til dæmis hafi á Raufarhöfn fengist aukinn byggðakvóti, fé verið úthlutað til uppbyggingar ferðamannastaða sem hafi nýst til þess að reisa Heimskautagerðið og alþjóðleg rannsóknastöð tengd heimskautasvæðinu hafi verið sett á laggirnar. Þá hafi verkefnið styrkt félagslega innviði með tilkomu íbúasamtaka og samtaka eldri borgara.

Heimskautagerðið í Raufarhöfn.
Heimskautagerðið í Raufarhöfn. Silja Jóhannesdóttir
Miðsúla Heimskautagerðisins í Raufarhöfn.
Miðsúla Heimskautagerðisins í Raufarhöfn. Silja Jóhannesdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert