„Ljótara en nokkur utanvegaakstur“

Reiðstígur við Hvaleyrarvatn.
Reiðstígur við Hvaleyrarvatn. Ágúst H. Bjarnason

Ekki var fagurt um að litast og ljótara en nokkur utanvegaakstur.“ Svo lýsti Ágúst H. Bjarnason, grasafræðingur, aðkomunni að landi sem hann og fjölskylda hans hafa haft til afnota við Hvaleyrarvatn á Facebook síðu sinni. Þar birtir hann meðfylgjandi myndir þar sem má sjá hvernig jarðýta hefur rutt m.a. trjám úr grónum melum á landi við Hvaleyrarvatn sem hann og fjölskylda hans hafa haft í erfðafestu frá sjötta áratug síðustu aldar.

Nánar um erfðafestu í Morgunblaðinu

Framkvæmdirnar sem hér um ræðir eru reiðstígur sem Hafnarfjarðarbær er að leggja um landið, sem tilheyrði Ás í Garðahreppi. Landið var í eigu ríkisins þegar gerður var leigusamningur með erfðafestu við föður Ágústar en Hafnarfjarðarbær eignaðist svo landið með tímanum. Á skikanum hefur verið stunduð uppgræðsla og trjárækt auk þess sem þar er sumarbústaður.

„Frétti ekkert fyrr en búið er að fara með jarðýtu í gegn“

Ágúst fékk tilkynningu frá bænum um miðjan september þar sem honum var tilkynnt að girðing umhverfis landið væri í trássi við lög og yrði rofin til gerðar reiðstígsins. „Í leigusamningnum sem við erum með eru tilgreind lóðamörk og heimil girðingarstæði,“ segir Ágúst. „Okkur er tilkynnt í bréfi að það eigi að fara í gegnum landið með reiðstíg. Svo er okkur sagt símleiðis að við höfum hvort eð er ekkert að gera með allt þetta land. Við mótmæltum þessu og ég skrifaði bæjarstjóra og bæjarfulltrúum bréf. Bæjarstjóri svaraði og sagði þetta verða tekið til athugunar en svo frétti ég ekkert fyrr en búið er að fara með jarðýtu þarna í gegn.“

Gott fordæmi fyrir uppgræðslusvæði

Ágúst segir melana sem lagðir voru undir stíginn sérstaklega merkilega vegna þess að þeir séu dæmi um náttúrulega hörfun lúpínu sem var plantað þar á berangur 1958 en aðrar plöntur hafa síðan tekið við.

„Þarna er friðlýst plöntutegund og ég hefði ætlað að þetta þyrfti að fara í umhverfismat, þar sem þetta er það stór framkvæmd. Svo er athugavert hvað þarf að róta mikið landi til þess að koma fyrir reiðvegum. Þetta nær ekki nokkurri átt.“

Nánar um uppgræðslu á svæðinu á heimasíðu Ágústar.

Málið fer héðan af væntanlega í lögfræðilega meðferð, að sögn Ágústar.

Ummerki eftir að rutt var fyrir reiðstígnum.
Ummerki eftir að rutt var fyrir reiðstígnum. Ágúst H. Bjarnason
Reiðstígur við Hvaleyrarvatn.
Reiðstígur við Hvaleyrarvatn. Ágúst H. Bjarnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert