Það fyrsta var að koma börnunum út

Betur fór en á horfðist í eldsvoðanum í Mosfellsbæ í …
Betur fór en á horfðist í eldsvoðanum í Mosfellsbæ í nótt þökk sé Böðvari. Eggert Jóhannesson

Böðvar Sigurðsson leigubílstjóri var svo sannarlega réttur maður á réttum stað í nótt þegar hann bjargaði tveimur börnum út um glugga á brennandi húsi í Mosfellsbæ. Böðvar var nýbúinn að keyra unga stúlku heim og villtist á leiðinni, gleymdi að taka beygju og sá þá eldglæringar í fjarska.

„Það er alltaf gott að maður geti komið í veg fyrir alvarleg slys. Það er yndisleg tilfinning,“ segir Böðvar.
„Ég var niðri í miðbæ og er sendur í túr með tvær stúlkur. Önnur fór í Grafarvog en hin í Mosfellsbæ. þegar ég er búinn að skila henni af mér þá villist ég og lendi í einhverjum botnlanga. Þá sé ég þessar glæringar. Ég keyri niður í botn á götunni og sé bjarmann. Hljóp yfir og sé að gaflinn er eitt eldhaf sem magnaðist fljótt. Það voru komnar eldtungur inn í íbúðina þar sem börnin voru,“ segir hann.

Veðrið í nótt var slæmt. Kalt, rok og rigning. Þegar Böðvar kom að húsinu var það fyrsta sem hann hugsaði að þarna hefði verið kveikt í. „Það var allt rennandi blautt og það kviknar í öllu timbrinu utan á húsinu. Aðkoman var eins og að koma að brennu. Eldurinn náði frá jarðveginum, upp tvær hæðir og upp í þak.“

Böðvar byrjaði að hlaupa upp á efri hæðina og bankaði þar og barði en enginn kom til dyra. Þá hljóp Böðvar í næsta hús og vakti nágrannana. „Nágranninn kom með mér og við vöktum fólkið og þá var það fyrsta að koma börnunum út. Við fórum með börnin út um gluggana en maðurinn hlýtur að hafa farið í gegnum logandi dyrnar því allt í einu var hann kominn út. Ég sá hann aldrei koma út.
Mér leið yndislega því þarna var maður hugsanlega að bjarga mannslífi. Það skíðlogaði allt og enginn var vakandi og allt slökkt í hverfinu.“

Hann segir að hann hafi verið feginn því að villast. „Auðvitað var það þannig að þetta var lán í óláni að ég villtist. Ég ætlaði að fara út úr þessum botnlanga og átti að beygja til hægri en hélt óvart áfram. Lenti þá í þessum botnlanga sem ég átti aldrei að fara í. Stundum er maður leiddur á rétta staði.
Mér líður vel núna og ég er glaður að allir hafi lifað af. Það er það sem stendur upp úr. Það varð engum meint af einu né neinu og það er alltaf hægt að bæta húsið. En maður bætir ekki manntjón,“ segir Böðvar, hetja helgarinnar, en ítarlegt viðtal verður við hann í Morgunblaðinu á morgun.

Bjargaði börnunum gegnum glugga

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert