Ákærð fyrir manndrápstilraun

AFP

Íslensk kona bíður dóms fyrir tilraun til manndráps í Ungverjalandi. Hún er sökuð um að hafa byrlað vinkonu sinni svefnlyf og barið hana í höfuðið með hamri. Verjandi konunnar segir málsmeðferðina hina undarlegustu. Þetta kom fram í kvöldfréttum Sjónvarpsins.

Fjölmargir Íslendingar hafa stundað nám í borginni Debrecen í Ungverjalandi síðustu ár. Ungverskir fjölmiðlar greina frá því að íslensk kona, sem var við nám í borginni, hafi verið ákærð fyrir tilraun til manndráps.

Atvikið átti sér stað sumarið 2012. Samkvæmt ákærunni, sem lýst er í ungverskum miðlum, voru hin ákærða og fórnarlambið góðar vinkonur. Kvöld eitt hafi hin ákærða boðið vinkonu sinni, sem er frá Nígeríu, í mat. Þá hafi hún verið búin að setja svefnlyf í mat vinkonunnar.

Í ákærunni segir, samkvæmt frétt RÚV, að vinkonan hafi sofnað fljótlega eftir matinn og verið mjög slöpp morguninn eftir, þegar íslenska stúlkan hafi dregið upp hamar og barið hana tvisvar í höfuðið. Stúlkunni hafi tekist með erfiðismunum að komast út úr íbúðinni og gera vart við sig. Hún hafi verið flutt á spítala með áverka á höfði auk þess hafi svefnlyf fundist í blóði hennar. Íslenska stúlkan hafi verið horfin á braut þegar lögregla kom á staðinn, en lögreglumenn hafi fundið hamarinn. Í ungverskum miðlum kemur fram að ekkert sé vitað um ástæður verknaðarins.

Hér er hægt að lesa nánar um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert