Annasöm nótt hjá lögreglu

Nóg var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Nóg var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu átti annasama nótt, en mikill fjöldi mála kom upp. Í Austurbænum voru höfð afskipti af tveimur bílstjórum sem grunaðir eru um ölvunar- eða fíkniefnaakstur. Þá voru afskipti höfð af pari eftir að maðurinn klemmdi fingur við útihurð. Parið er grunað um vörslu fíkniefna og fundust slík efni í vösum þeirra og á heimili.

Í Breiðholti var tilkynnt um innbrot í skóla. Gluggi var spenntur upp og farið inn. Reynt var að stela tölvuskjá, en líklegae fór innbrotsþjófurinn tómhentur af vettvangi. Þá voru tveir ökumenn stöðvaðir í Kópavogi grunaðir um ölvunar- eða fíkniefnaakstur.

Á Árbæ hafði lögregla tvisvar afskipti af skemmtun á vegum íþróttafélags. Fyrst eftir að maður í annarlegu ástandi lenti í átökum við dyravörð, en hann var vistaður í fangageymslu í kjölfarið. Þá datt kona við svið skemmtunarinnar og er talið að hún hafi troðist undir og misst meðvitund. Var hún talin brotin á handlegg og með sár á höfði. Fluttu sjúkraliðar hana á slysadeild.

Í Mosfellsbæ var svo maður í annarlegu ástandi handtekinn við hjúkrunarheimili í bænum þar sem hann hafði brotið rúðu. Lögreglan vistar manninn í fangageymslu þangað til hægt verður að ræða við hann.

Í miðbænum var maður handtekinn grunaður um líkamsárás og var hann vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins. Þá var maður sem hafði ítrekað reynt að hindra störf lögreglu handtekinn og vistaður í fangageymslu þangað til ástand hans lagaðist. Í Austurstræti var maður handtekinn, en hann var ósjálfbjarga. Var maðurinn án skilríkja og vistaði lögregla hann í fangageymslu. Þá var ofurölvi kona handtekin á Hverfisgötu eftir að hafa tekið leigubíl en ekki getað greitt fyrir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert