Karen slapp vel frá flóðunum

Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, spilar með franska félaginu Nice. Hún slapp vel frá flóðunum í nótt en sextán létust í óveðri sem geisaði á frönsku Ríveríunni í nótt. Sjálf var Karen stödd í borginni Mense að spila útileik þegar óveðrið geisaði.

„Það var allt í góðu með íbúðina mína en við vorum að spila útileik. Það voru þrjár í liðinu sem fengu hins vegar símhringingu um að það hefði lekið vatn inn í íbúðirnar þeirra og að vatnið væri um metri á hæð. Þetta var mjög óþægilegt fyrir þær þar sem þær voru ekki heima og gátu ekkert gert.“

Karen segir að göturnar hafi verið afar fljótar að fyllast af vatni. „Þetta gerðist nánast á núll einni, eins og hellt væri úr fötu. Það er líka eins og niðurföllin séu eitthvað lélegri hér og þau höfðu ekki undan.“

Sjálf slapp Karen vel en hún býr í blokk uppi í fjalli þannig að vatnið rann nánast fram hjá hennar húsi. „Á stundum sem þessum sér maður hvað það skiptir miklu máli að búa í tryggum húsum.“

Hún segir að björgunarstarf hafi gengið afar vel og niðri í miðbænum séu margir björgunarsveitarmenn og sjálfboðaliðar að störfum. „Núna er í raun eins og það hafi ekkert gengið á í þeim hverfum sem sluppu vel, það er búið að hreinsa allt vatn af götunum.“ Hún segir mestu skemmdirnar hafa orðið í miðborginni og unnið sé að því að koma öllu í rétt horf við höfnina og ströndina.

Veðrið hefur gengið niður og það er sól og blíða í Nice. Karen ætlar að njóta sólarinnar og bjóða þeim hjálp sem þurfa á henni að halda í dag. Hún segir aðstæðurnar óþægilegar en sem betur fer sé allt að komast í rétt horf.

Frétt mbl.is - Mannskæð flóð í Frakklandi

Karen Knútsdóttir.
Karen Knútsdóttir. Ljósmynd/hsi.is
Vatnið reif upp tré með rótum í Nice.
Vatnið reif upp tré með rótum í Nice. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert