Sjálfs er höndin hollust

Hin magnaða Betty Dodson var meðal gesta á norrænni kynfræðiráðstefnu …
Hin magnaða Betty Dodson var meðal gesta á norrænni kynfræðiráðstefnu sem fram fór á Hótel Natura um helgina. mbl.is/Hólmfríður Gísladóttir

Betty Dodson er einstök. Hún tekur brosandi á móti mér á Hótel Natura og breiðir út faðminn þegar ég geri mig líklega til að rétta fram höndina og kynna mig. „Ég vil faðmlag,“ segir hún og faðmlag fær hún, þessi 86 ára gamla kona sem nær mér vart upp að öxlum en gefur frá sér magnaða orku. „Ég heiti Hófí,“ segi ég smituð af óformlegheitunum og Dodson svarar um hæl: Hófí? Eins og í „ho“? Svo hlær hún að dónalegheitunum í sjálfri sér. Þar með hafa línurnar verið lagðar fyrir samtal okkar næsta klukkutímann.

Dodson er ein af þeim manneskjum sem maður freistast til að kalla bara fornafninu; hún er bara Betty. Ferill hennar á sér engan líkan. Hún flutti til New York frá Kansas á sjötta áratug síðustu aldar til að læra og leggja stund á listsköpun. Hún var meðal fyrstu bandarísku femínistanna en kynfrelsun kvenna var hennar helsta baráttumál og árið 1973 efndi hún til skyggnusýningar á ráðstefnu National Organization for Women þar sem hún sýndi myndir af kynfærum kvenna. Þá stóð hún einnig fyrir kynningu á rafmagnstitrara sem kynlífshjálpartæki fyrir konur.

Hún hefur skrifað vinsælar bækur um kynlíf, m.a. Liberating Masturbation: A Meditation on Selflove og Sex for One, en frægust er Betty fyrir vinnustofur sínar, þar sem konur koma saman og ræða líkama sína og kynlíf út frá persónulegu sjónarhorni, skoða píkur hver annarrar og stunda sjálfsfróun. Betty hefur helgað líf sitt leitinni að kynferðislegri ánægju og fullnægju, og hjálpað fjölda kvenna, en um leið og ég hef varpað fram þeirri spurningu hvað hafi breyst á þeim tíma frá því hún hóf þessa sérstöku vegferð, má lesa úr svip hennar að henni er langt í frá lokið.

„Mjög lítið,“ segir hún. „Mjög lítið.“

Nýjar kynslóðir, gömul vandamál

„Við erum orðin biluð í Bandaríkjunum. Það er skammarlegt. Og það er af því að repúblikanar eru hálfvitar. Þeir eru allir trúarofstækismenn og vilja komast aftur til valda. Þeim mun ekki takast það, en þeir munu reyna allt sem þeir geta til að láta það gerast. Meirihluti Bandaríkjamanna vill ekki sjá þá, en þeir eru með meiri hávaða en við. Við erum of upptekin af því að njóta lífsins, en þeir lifa eymdarlífi,“ segir Betty og það kemur fljótt í ljós að hún hefur afar takmarkaða, ef einhverja, þolinmæði gagnvart trúarbrögðum og afturhaldssemi.

Hún segir skömmina sem fylgir því að vera Bandaríkjamaður svo mikla um þessar mundir að á erlendri grund kynni hún sig sem New York-búa, en útskýrir svo hvernig trúarlegt uppeldi hafi hamlað framþróun í kynferðismálum. „Þetta er alltaf sama sagan. Hver ný kynslóð; við erum öll að kljást við sömu vandamálin.“ Stöðnunina í kynfrelsisbyltingunni merkir Betty m.a. á þeim spurningum sem henni hafa borist í gegnum árin og áratugina, en þær lúta alltaf að því sama segir hún. „Hvernig veit ég hvort ég hef fengið fullnægingu? Hvernig veit ég hvort ég er að því komin að fá fullnægingu? Hvað getur hann gert? Fólk er bara algjörlega ringlað.“

En hvað er til ráða, hvað getum við gert til að breyta þessu? spyr ég. „Kynfræðsla,“ er svarið. 

Betty segir fólk almennt skíthrætt við líkamlega ánægju; því finnist mun auðveldara að beita ofbeldi og heyja stríð. Það megi rekja til þess að karlar ráði ríkjum. „Ég vil helst senda þá í búðir,“ segir Betty og hlær. („Camps“ er orðið sem hún notar.) Hún segir að vandamálið megi einnig rekja til foreldra sem ræði ekki um kynlíf við börnin sín. Það sé vegna þess að þeir stundi ekki kynlíf sjálfir og líklega kunni þeir það ekki. Betty dregur ekkert undan.

„Konur eru ekki að fá fullnægingu og þær umbera það og karlmaðurinn meðtekur það. Hann hefur sáðlát og hún skolar það af sér!“ segir hún í hneykslunartón.

Þú talar um að konur þurfi að axla ábyrgð á eigin fullnægingu...?

„Ég kalla það að stjórna samförunum. [Run the fuck, innsk. blm.] Konur verða að stjórna samförunum. Þetta virkar ekki,“ segir Betty og hreyfir fingurna til að tákna tippi-í-píku. „Svona verður þú ólétt. Konur gera sér upp fullnægingu, það er auðveldara. Vinkonur mínar segja: Ef ég feika það ekki fær hann hjartaáfall! Af því að hann heldur bara áfram: Ertu að fá það? Ertu komin að því að fá það? Og þær stynja: Oh oh oh...“

Betty segir ástæðuna fyrir því að konur virðast uppteknari af því að fullnægja körlum en sjálfum sér einfalda: sama kaup fyrir sömu vinnu. „Konur eru enn háðar karlmönnum. Til að borga leiguna, fara út með ruslið,“ segir hún. Þetta sé að breytast; konur hafi unnið á í atvinnulífinu og leggi í auknum mæli stund á raungreinanám í háskólum. Þróunin sé hins vegar hæg.

Er sjálfsfróun þá kannski pólitísk aðgerð, spyr ég. Svarið skilar sér best óþýtt.

„You bet your sweet ass!“

Eins og að ganga inn í fallegan garð

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að Betty hóf baráttu sína fyrir kynfrelsi kvenna en það er óhætt að fullyrða að mörgum hafi þótt Vagina Monologues Eve Ensler, Sex and the City og The L-Word til marks um aukið frjálsræði kvenna í kynferðismálum. Betty er alls ekki á því og hefur t.d. gagnrýnt notkun orðsins „vagina“ yfir kynfæri kvenna.

„Við vitum ekki einu sinni hvað við eigum að kalla kynfærin okkar,“ segir hún. „Rétta orðið er píka (vulva). Það nær til ytri skapabarmanna, innri skapabarmanna, snípsins; alls pakkans. „Vagina“ eru fæðingargöngin. Það er allt sem þeir vilja, karlar, þeir vilja typpið í leggöngin. Og ef við köllum píkuna leggöng þá takmarkar það hvernig við ríðum og þannig fáum við ekki fullnægingu,“ segir Betty. Hún segir að vandræðaganginn við rétta orðanotkun mega rekja til trúarbragða og fáfræði.

Hvað með Sex and the City? „Algjört drasl. Þær eru allar að leita að manni!“ Og The L-Word? „Þær eru allar að leita eftir því að verða ástfangnar og parast!“

Betty gengst fúslega við því að vera það sem sumir hafa kallað „herskár femínisti“.

„Ég elska karla. Ég ólst upp með bræðrum. Ég elska að ríða körlum. En vil ég giftast þeim, búa með þeim, gera það sem þeir vilja? Nei, ég vil gera það sem mig langar að gera. Ég er klárari, ég bý yfir meira erfðaefni, ég er betur máli farin. Við erum gáfaðari, við erum fyrsta kynið,“ segir hún. Söguskýring Betty er á þessa leið: Konan réði ríkjum. Svo prentaði karlinn Biblíuna og þá fór allt til fjandans. Hún vill að konan taki aftur við taumunum; það sé eina leiðin til að bjarga heiminum.

Að sögn Betty myndast einstakt systralag meðal þeirra kvenna sem sækja Bodysex-vinnustofurnar hennar, en þær hefjast á því að konurnar afklæðast og setjast í hring. „Það er eitthvað fornaldarlegt við það þegar konur setjast saman í hring. Það ríkir jafnræði. Og þú segir við sjálfa þig: Oh sjáðu þessi stóru brjóst, þau ná niður að mitti! Það er eitthvað fallegt við þau. Og þessi er næstum flatbrjósta, oh þau eru svo krúttleg! Skilurðu hvað ég meina? Og þessi hefur látið fjarlægja brjóst, hún hefur fengið krabbamein. Þetta lítur ekki svo illa út,“ segir hún.

Á námskeiðinu skoða konurnar einnig eigin píku og annarra. „Þetta er eins og að ganga inn í garð og sjá falleg blóm. Þau eru öll ólík en öll falleg,“ segir Betty, en því miður sé það hennar reynsla að konur séu sjaldnast ánægðar með það hvernig þær líta út að neðan. Fleiri hafa hins vegar skoðað píkuna á sér í dag en þegar hún var að byrja með vinnustofurnar. „En viðbrögðin eru ekki jákvæð. Ekki nema þær hafi átt elskhuga sem talaði um hversu falleg píkan þeirra væri. Það hjálpar. En þeir hafa ekki vit á því. Og þeir eru að horfa á klámmyndastjörnur sem hafa gengist undir skurðaðgerðir til að breyta sér.“

En hvað þá um klámið, er það að hafa áhrif á það hvernig strákar upplifa konur og kynlíf?

„Ég vil ekki ritskoða það, ritskoðun virkar ekki. Það fer bara í felur og brýst svo sterkar fram. Það er okkur að kenna að klámið er að koma í staðinn fyrir kynfræðslu af því að skólakerfið getur ekki komið kynfræðslunni á dagskrá með beinum hætti. Þannig að krakkarnir alast upp við að horfa á klám sem kynfræðslu og að sjálfsögðu fá konurnar greitt fyrir að segja: Allt sem þú ert að gera er dásamlegt!“ Enn og aftur segir Betty gegnsýringu trúarinnar um að kenna.

Betty segist muna þá tíma þegar „frjálsar ástir“ réðu ríkjum, áður en alnæmi batt enda á kynlífspartí og tilraunastarfsemi. G-bletturinn var kynntur til sögunnar og mönnum sagt að ef þeir gætu fundið hann þá fengi konan fullnægingu. Sjálfir hafi karlarnir orðið fórnarlömb klámsins vegna sjónræns eðli þess; í kapphlaupinu við að fá fullnægingu, með hver brjóstin á fætur öðrum fyrir augunum, hafi þeir misst sambandið við eigin líkama og tapað getunni til að byggja upp kynferðislega spennu. Betty líkir þessum instant-fullnægingum við hnerra.

Sjálfsfróun er ekki sárabót

Betty segir sorglegt að sjálfsfróun og fullnægingar séu feimnismál enn þann dag í dag. Við ræðum aftur þá staðreynd að hún sé enn að fá sömu spurningarnar og hún fékk fyrir áratugum  og það ber aftur á góma hversu mikil áhrif uppeldi hefur á afstöðu fólks til kynlífs.

„Ef barn fær ekki að fróa sér þegar það er að alast upp þá mun það eiga í vandræðum með að fá fullnægingu. Ef ég hefði aldrei fengið mat í barnæsku og þú færir allt í einu að mata mig, hvað myndi gerast? Þegar við erum lítil og teygjum okkur niður og uppgötvum kynfærin okkar, stelpur og strákar, þá kemur mamma og slær á hendurnar og það hefur áhrif,“ segir Betty. En hvað eiga foreldrar þá að gera? „Láta börnin vera! Og hitt vandamálið sem ég stóð andspænis var það þegar konur tóku þátt í vinnustofu hjá mér og fóru svo heim og sögðu við 12 ára dóttur sína: Mary Lou, nú átt þú að byrja að stunda sjálfsfróun. Mamma! Vinsamlegast! Þetta er ógeðslegt! Það er alveg jafn slæmt. Þegiðu og leyfðu náttúrunni að taka stjórnina.“

Þegar við ræðum lausnir nefnir Betty kirkjuna enn og aftur sem rót alls hins illa. Og hún meinar það. Hún kemur ennig inn á pólitík og segist fagna því að repúblikanar virðist í sjálfseyðingaham. Sjálf segist hún ætla að tóra til að sjá Elizabeth Warren verða forseta. Hún segir framtíðina í höndum kvenna; þær verði að redda þessu sjálfar. Betty hefur nú um tíu ára skeið átt í samstarfi við lögmann að nafni Carlin Ross og þær eru í herferð: markmiðið er að breiða út boðskap Bodysex-vinnustofanna á heimsvísu. Báðar elska þær kynlíf, segir Betty, og hafa einsett sér að svara því hvernig femínistar ríða. Sjálf segist Betty líta á kynlíf sem upphitun fyrir sjálfsfróun.

Ættu konur þá kannski að hætta að horfa til sjálfsfróunar sem sárabótar eða 2. verðlauna í kynlífskapphlaupinu? „Oh sjálfsfróun er númer eitt. Ástarsamband þitt við sjálfa þig mun endast þér ævina. Það mun koma þér gegnum mikið. Og þú getur alltaf stólað á sjálfa þig. Ég sagði það í fyrstu bókinni minni: Eiginmenn og elskhugar koma og fara en sambandið sem þú átt við sjálfa þig varir; það er sambandið sem þú vilt rækta.“

Verk eftir Gustav Klimt: Frau bei der Selbstbefriedigung.
Verk eftir Gustav Klimt: Frau bei der Selbstbefriedigung. Mynd/Wikipedia
Betty segir samfélagið geta sjálfu sér um kennt að klám …
Betty segir samfélagið geta sjálfu sér um kennt að klám hafi komið í stað kynfræðslu. Skjáskot/YouTube
Það er ekki að sjá né heyra að Betty sé …
Það er ekki að sjá né heyra að Betty sé á níræðisaldri, en hún segist ætla að tóra a.m.k. fjögur ár í viðbót, eða þar til Elizabeth Warren verður forseti. Sem mun gerast, að sögn Betty. mbl.is/Hólmfríður Gísladóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert