Unnur Brá enn óákveðin

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki enn hafa tekið ákvörðun um hvort hún hyggist bjóða sig fram til varaformanns á landsþingi sem hefst í lok mánaðarins. Aðspurð hvort eitthvað hafi breyst eftir framboð Ólafar Nordal segir Unnur Brá að hún hafi áður lýst því yfir að hún sé að íhuga að bjóða sig fram og það standi enn þá. „Það verður að koma í ljós með mína ákvörðun,“ segir hún.

Framundan er að hennar sögn mest vinna í málefnastarfi flokksins fyrir landsfund og segir Unnur Brá að í hennar huga þurfi sérstaklega að huga að því vandamáli sem er uppi á húsnæðismarkaðinum. „Ég tel húsnæðismálin mikilvægust og hvernig ungt fólki er aðstoðað við að koma upp heimili,“ segir hún.

Unnur Brá nefndir einnig utanríkismálin sem mikilvægt málefni sem hún vilji að flokkurinn álykti um á landsfundi. Nefnir hún þar ástandið í Sýrlandi og málefni flóttamanna, en auk þess málefni Evrópusambandsins og Íslands og viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi. Leggur hún áherslu á að Ísland eigi að gera allt sem það geti til að aðstoða Sýrlendinga. Bæði sé mikilvægt að leggja sitt af mörkum til að aðstoða í nágrannalöndum Sýrlands auk þess sem Ísland muni bjóða hingað flóttafólki. „Við getum ekki bjargað öllum, en getum skipt sköpum fyrir nokkra,“ segir Unnur Brá.

Þá segir hún að Ísland geti verið sterkur aðili á alþjóðavettvangi og talað máli Sýrlendinga þar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert