Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 24,4% samkvæmt niðurstöðum nýs þjóðarpúls Gallups og hefur aukist um 3% frá því fyrir mánuði síðan. Fylgi annarra flokka breytist á bilinu 0,7 til 1,3 prósentustig milli mánaða.

Píratar mælast áfram með mest fylgi eða 34,6% en fylgi þeirra minnkar lítillega frá síðasta mánuði. Vinstrihreyfingin - grænt framboð er með 10,6% og minnkar fylgi flokksins að sama skapi aðeins. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin mælast með 10,1% og Björt framtíð með 5,6%. Fylgi Framsóknar minnkar en fylgi Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar réttir aðeins úr kútnum.

Tæplega 5% sögðust kjósa aðra flokka en nú eiga sæti á Alþingi. Tæplega 11% tóku ekki afstöðu eða neituðu að gefa hana upp og liðlega 9% sögðust ætla að skila auðu.

Stuðningur við ríkisstjórnina eykst um tvö prósentustig milli mánaða, en liðlega 36% þeirra sem tóku afstöðu segjast styðja hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert