Losaði ökumanninn undan bílnum

Lögreglan á Höfn er með málið til rannsóknar.
Lögreglan á Höfn er með málið til rannsóknar. Ljósmynd/ Sigurður Bogi Sævarsson

Alvarlegt umferðarslys varð á hringveginum við Þorgeirsstaði í Lóni síðastliðið fimmtudagskvöld. Fólksbifreið fór útaf veginum og valt með þeim afleiðingum að ökumaður festist með efri hluta líkamans undir bifreiðinni. 

Þetta kemur fram í Facebook-færslu lögreglunnar á Suðurlandi um helstu verkefni síðustu viku. 

Vegfarandi sem var vitni að óhappinu tókst að mjaka bifreiðinni til og losa um ökumanninn. Lögreglumenn á Höfn fór á vettvang ásamt sjúkraflutningamönnum. Ökumaður og báðir farþegarnir voru fluttir með sjúkraflugi á slysadeild Landspíala þar sem gert var að sárum þeirra. 

Ökumaður reyndist viðbeinsbrotinn og með ýmsa aðra áverka. Farþegarnir voru minna slasaðir en allir þrír voru í belti.

Ökumaðurinn mun hafa misst stjórn á bifreið sinni eftir að hafa lokið við að aka fram úr vöruflutningabifreið með eftirvagn. Lögreglumenn á Höfn eru með málið í rannsókn.

Uppfært kl. 13.24

Samkvæmt upplýsingum frá aðstandanda bílstjóra fólksbifreiðarinnar hafði bílstjórinn ekki lokið við að aka fram úr vöruflutningabílnum þegar slysið varð. Bílstjóri vöruflutningabílsins gaf hinum ökumanninum merki um að óhætt væri að taka fram úr bílnum. 

Þegar ökumaður fólksbílsins var á leið fram úr vöruflutningabílnum missti hann stjórn á bílnum í lausamöl, rakst utan í vöruflutningabílinn og valt í kjölfarið. Það var síðan vörubílstjórinn sem mjakaði bifreiðinni til og losaði ökumanninn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert