Talinn hafa beitt aðra stúlku kynferðislegu ofbeldi

Ingvar Dór sætti gæsluvarðhaldi þar til dómur var kveðinn upp …
Ingvar Dór sætti gæsluvarðhaldi þar til dómur var kveðinn upp yfir honum á föstudag. mbl.is/Brynjar Gauti

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur vísað öðru máli á hendur Ingvari Dór Birgissyni sem var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga 14 ára gamalli stúlku til saksóknara.  Hann er grunaður um að hafa beitt aðra stúlku á sama aldri kynferðislegu ofbeldi.

Hæstiréttur staðfesti þriggja og hálfs árs fangelsisdóm yfir Ingvari Dór á föstudag en hann nauðgaði 14 ára gamalli stúlku og áreitti hana kynferðislega þegar hún var 14 ára en hann 25 ára.

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar er hann grunaður um sambærileg brot gegn annarri stúlku sem sömuleiðis var 14 ára. Það mál sé komið til saksóknara en ekki hafi verið gefin út ákæra í því ennþá. Ingvar Dór var handtekinn í Hollandi eftir að hann fór úr landi á meðan rannsókn málsins var enn í gangi í janúar. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í sumar.

Í frétt Vísis af máli Ingvars Dórs segir að í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir honum komi fram að hann hafi mælt sér mót við stúlkuna eftir að hafa haft samband við hana á netinu og fengið hana til að senda sér nektarmyndir. Hann hafi síðan haft við hana samræði, meðal annars með því að hóta að birta myndirnar sem hún hafði sent honum.

Fyrri frétt mbl.is: Þrjú og hálft ár fyrir nauðgun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert