„Þetta snýst auðvitað um réttlæti“

Frá fundi Hrafns og forsetans á Bessastöðum í dag.
Frá fundi Hrafns og forsetans á Bessastöðum í dag. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Mér ofbauð sem borgara í heiminum þegar ég frétti af máli þessa unga manns í Sádi Arabíu sem dauðinn vofir nú yfir. Ég efndi til þessarar undirskriftasöfnunar um miðja síðustu viku og það voru rétt um 2000 sem höfðu skrifað undir þetta ákall til forseta Íslands þegar þær voru afhentar í dag.“

Þetta segir Hrafn Jökulsson í samtali við mbl.is en hann afhenti forseta Íslands undirskriftir á Bessastöðum í dag vegna  Ali al-Nimr sem  dæmdur hefur verið til dauða í Sádi Arabíu. Sagt var frá máli al-Nimr í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. al-Nimr var aðeins sautján ára þegar hann var fangelsaður fyrir mótmæli og almenna pólitíska óþekkt meðan arabíska vorið stóð sem hæst. Nú, þremur árum seinna, hefur hann verið dæmdur til krossfestingar og dauða af sérstökum glæpadómstól í landinu. Nái refsingin fram að ganga verður hann afhöfðaður og lík hans sýnt opinberlega, öðrum mótmælendum til varnaðar.

Fyrri frétt mbl.is: Verður gerður höfðinu styttri 

Hrafn og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, áttu klukkustundar langan fund þar sem Hrafn gerði grein fyrir máli al-Nimr og stöðu hans. „Nú vantar bara undirskrift konungs þá getur þessi aftaka farið fram hvenær sem er,“ segir Hrafn og bætir við að margir þjóðarleiðtogar hafi biðlað til konungsins um að skrifa ekki undir.

„Okkur ber að skerast í leikinn“

„Ég rakti málið og þá staðreynd að margir af helstu ráðamönnum heims hafa látið til sín taka í þessu máli. Til dæmis hafa bæði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands og Francois Hollande Frakklandsforseti beðið unga manninum griða. Ég bað forseta fyrir hönd þessa stóra hóps að beita sér sem okkar þjóðhöfðingja í þessu máli. Þetta snýst auðvitað um réttlæti, þessa unga manns bíður hryllilegur dauðdagi fyrir engar sakir og okkur ber að skerast í leikinn,“ segir Hrafn.

Hann segir að Ólafur Ragnar hafi sýnt málinu mikinn áhuga og skilning og gerir ráð fyrir því að forsetinn muni skoða málið vandlega. „Hvaða ákvörðun hann tekur verður að koma í ljós en ég hef fulla trú á því að forseti okkar sýni þessu máli þann áhuga sem það verðskuldar miðað við hvað mikið er er í húfi.“

Tíminn mjög dýrmætur

Hrafn segir að aftakan geti farið fram hvenær sem er. „Úr kerfinu í Sádi Arabíu berast aldrei neinar upplýsingar. Þetta gæti gerst hvenær sem er. Konungurinn sem er nýlega tekinn við völdum hefur sýnt mikla refsigleði. Á þessu ári hafa þegar farið fram mun fleiri aftökur heldur en allt árið í fyrra og því er mikil ástæða að hafa áhyggjur og þess vegna er tíminn mjög dýrmætur núna.“

HÉR er hægt að skrifa undir. 

Ali Mohammed al-Nimr.
Ali Mohammed al-Nimr. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert