Útkall vegna elds í Breiðholti

mbl.is/Eggert

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út á áttunda tímanum í kvöld vegna elds sem logaði í póstkassa fjölbýlishúss í Völfufelli. Búið var að slökkva eldinn þegar slökkvilið bar að garði.

Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra SHS, barst tilkynning rétt fyrir klukkan 20 í kvöld. Hann segir að íbúar hafi náð að ráða niðurlögum eldsins með garðslöngu. 

Tvær stöðvar voru sendar á vettvang en annarri var fljótlega snúið við. Varðstjórinn segir að skemmdir hafi verið minniháttar og hlutverk slökkviliðsmanna á vettvangi hafi fyrst og fremst verið að lofta út.

Talið er að um íkveikju hafi verið að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert