Uppspuni hjá meintu fórnarlambi

Fangaklefi. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Fangaklefi. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Hjálmar S. Brynjólfsson

Íslensk kona sem bíður dóms í Ungverjalandi fyrir tilraun til manndráps ber við sakleysi og að frásögn meints fórnarlambs af atvikum sé uppspuni. Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, lögmaður konunnar, segir að dómsuppkvaðningu hafi verið frestað þegar ungversk yfirvöld komust að því að íslensk yfirvöld vissu af málinu. 

Í frétt Ríkisútvarpsins í gær var haft upp úr ungverskum fjölmiðlum að stúlkan sé ákærð vegna árásar sem á að hafa átt sér stað sumarið 2012 þegar hún var við nám í Debrecen. Henni er gefið að sök að hafa byrlað vinkonu sinni svefnlyf og barið hana með hamri í höfuðið.

Ingibjörg Ólöf segir að konan, sem er á fertugsaldri, sé á Íslandi en hún hafi farið reglulega til Ungverjalands til þess að gefa skýrslur og sitja réttarhöldin. Meðferð málsins hafi verið undarleg. Þannig hafi upphaflega staðið til að kveða upp dóm í málinu í september. Þegar ungversk yfirvöld hafi hins vegar komist að því að íslensk yfirvöld vissu af málinu hafi því verið frestað fram í nóvember.

Sú saga sem íslenska stúlkan hefur haldið fram í málinu er allt önnur en meintur brotaþoli heldur fram, að sögn lögmannsins.

„Það munar umtalsverðu þarna á milli. Umbjóðandi minn ber við sakleysi og því að þetta sé í raun allt saman uppspuni hjá hinu meinta fórnarlambi,“ segir Ingibjörg Ólöf sem segir ljóst að málið hljóti að taka mikið á konuna.

Fyrri frétt mbl.is: Ákærð fyrir manndrápstilraun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert