Ber traust til orða ráðherra

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður hælisleitendanna tveggja.
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður hælisleitendanna tveggja.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður tveggja hælisleitenda sem töpuðu máli fyrir Hæstarétti, segist bera mikið traust orða innanríkisráðherra og telur víst að hann ákveði formlega að hætt verði að senda hælisleitendur til Ítalíu að óbreyttu ástandi þar. Hann bíður enn formlegra svara frá ráðherra við bréfi sem hann sendi vegna máls mannanna.

Hælisleitendurnir tveir kröfðust ógildingar úrskurðar innanríkisráðuneytisins og að felld yrði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um að hælisumsóknir þeirra yrðu ekki teknar til efnismeðferðar hér á landi og þeir sendir til Ítalíu. Hæstiréttur hafnaði kröfum þeirra í síðustu viku.

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, sagði á Alþingi í gær að mennirnir yrðu ekki sendir til Ítalíu fyrr en búið væri að leggja mat á stöðu þeirra og „heildarsamhengi hlutanna“. Málið væri til skoðunar í ráðuneytinu.

Ragnar ritaði ráðherranum bréf á föstudag þar sem hann óskaði eftir því að þeir yrðu ekki fluttir úr landi á meðan aðstæður væru með þeim hætti sem þær eru á Ítalíu. Hann segist ekki hafa fengið svar við því ennþá heldur hafi hann aðeins heyrt orð ráðherrans á þingi eins og aðrir.

„Auðvitað geri ég mér góðar vonir um að íslensk stjórnvöld sendi ekki hælisleitendur til Ítalíu á sama tíma og Evrópa er að taka rúmlega 50.000 flóttamenn þaðan vegna þess að ítalska ríkið ræður ekki við þann fjölda flóttamanna sem þar er,“ segir Ragnar.

Gæti beðið fangelsisrefsing eða dauðadómur vegna samkynhneigðar

Hann segir það einungis framkvæmdavaldsákvörðun að ákveða að fresta skuli brottvísun eða ekki. Ekkert við dóm Hæstaréttar skuldbindi stjórnvöld til þess að flytja mennina úr landi.

Mennirnir tveir hafa dvalið hér á landi í um þrjú ár, að sögn Ragnars, og eru þeir með vinnu hér. Annar mannanna sé í mikilli hættu verði honum vísað til Ítalíu því líklegast sé að hann verði endursendur til heimalandsins Nígeríu. Þar liggi allt frá fjórtán ára fangelsisdómi til dauðarefsingar við samkynhneigð.

Samtökin '78 hafa gagnrýnt dóma Hæstaréttar um að hælisleitendunum skuli snúið aftur til Ítalíu og að þeir stangist á við orð innanríkisráðherra um að ekki sé óhætt að senda hælisleitendur þangað.

Fyrri fréttir mbl.is:

Verða ekki sendir aftur til Ítalíu

Harma niðurstöðu íslensks réttarkerfis

„Grikkland ekki talið öruggt land“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert