Forsætisráðherra við Skaftá

Jóhannes Gissurarson, bóndi á Herjólfsstöðum í Álftaveri, Sigmundur Davíð og …
Jóhannes Gissurarson, bóndi á Herjólfsstöðum í Álftaveri, Sigmundur Davíð og Eva Björk. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Mér fannst nauðsynlegt að kynna mér hver staðan væri. Hér hafa orðið miklar skemmdir og náttúran verið í miklum ham. Það er ljóst að víða er þörf á því að ráðast í aðgerðir til að bæta skemmdir og mun ríkið og fleiri koma að því. Þess vegna fannst mér nauðsynlegt að kanna málin,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

Nú síðdegis fór Sigmundur Davíð austur í Skaftártungu til að kynna sér stöðuna þar í kjölfar Skaftárhlaups. Flóðið er að mestu gengið yfir og afleiðingarnar smám saman að koma í ljós.

„Lönd bænda hafa eyðilagst og vegir og girðingar skemmst,“ segir Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps. „Stóra málið er þó brúin yfir Eldvatn sem er lokuð það til annað kemur í ljós. Það setur stórt strik í reikninginn á bæjum í Skaftártungu.“

Forsætisráðherra og hans fólk eru nú á bænum Ytri-Ásum í Skaftártungu og ræða þar m.a. við sveitastjórnarmenn á svæðinu. Þeir segja að margar stofnanir þurfi að leggja uppbyggingu lið. Í því samhengi sé nauðsynlegt að ráðamenn viti hvernig landið liggur.

Nú er ágætisveður á svæðinu kalt en skýjað og fólk skoðar því aðstæður við prýðileg skilyrði.

Brúin yfir Skaftá á leið inn í Skaftárdal
Brúin yfir Skaftá á leið inn í Skaftárdal mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
Skaftá í síðustu viku.
Skaftá í síðustu viku. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert