Glæsileg norðurljósasýning

Fréttaritari mbl.is myndaði náði þessari mynd af norðurljósum í kvöld.
Fréttaritari mbl.is myndaði náði þessari mynd af norðurljósum í kvöld. mbl.is/Jónas Erlendsson

Það er gjarnan talað um að norðurljós stigi dans þegar þau sjást vel á næturhimninum. Óhætt er að taka þannig til orða um meðfylgjandi ljósmynd sem var tekin við bæinn Fagradal í kvöld, sem er skammt austan við Vík í Mýrdal.

Gera má ráð fyrir að ferðamenn sem komi hinga til lands gagngert til að berja norðurljósin augum hafi tekið gleði sína í kvöld, sem og aðrir norðurljósaunnendur, enda aðdráttarafl ljósanna er sterkt. 

Norðurljósin hafa sést víðar í kvöld, m.a. á höfuðborgarsvæðinu.

Í almanaki Háskóla Íslands segir, að norðurljósin myndist þegar hraðfara rafagnir, aðallega rafeindir, komi inn í háloftin og rekast á frumeindir og sameindir gufuhvolfsins. Rafeindirnar koma ekki beint frá sólinni heldur úr segulhvolfi jarðar, þeim megin sem frá sólu snýr. Það er samspil rafagna frá sólinni og segulsviðs jarðar sem veitir rafeindunum þá orku sem þarf til að mynda ljósadýrðina.  

Norðurljósaspá á vef Veðurstofu Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert