Hélt bílnum uppi á meðan ökumaðurinn var dreginn út

Valur Stefánsson sýndi snör handtök á slysstað á fimmtudag.
Valur Stefánsson sýndi snör handtök á slysstað á fimmtudag.

„Ég er engin hetja, maður gerir bara það sem maður þarf að gera,“ segir Valur Stefánsson bifreiðastjóri en hann lyfti bíl ofan af konu sem var föst í bílnum sem hafði oltið við Þorgeirsstaði í Lóni skammt frá Höfn.

Valur var að aka frá Egilsstöðum til Reykjavíkur um tíuleytið sl. fimmtudagskvöld þegar bíllinn birtist í baksýnisspeglinum. Valur hægði á og gaf stefnuljós um að öruggt væri að fara fram úr. Þegar bíllinn var á móts við stýrishúsið missti ökumaðurinn stjórn á honum í lausamöl og hann hentist út af. „Bíllinn var ábyggilega á 100 kílómetra hraða því ökumaðurinn gaf aðeins í til að fara fram úr mér. Það er klettur þarna við, bíllinn fór á hann, snérist í loftinu og valt. Ég er sannfærður um að þau hefðu öll kastast út úr bílnum hefðu þau ekki verið í beltum. Þetta var það rosalegt að sjá. Bíllinn fór í loftköstum yfir klettinn – marga tugi metra,“ segir Valur.

Lyfti bílnum upp

Valur stoppaði sinn bíl, hringdi á Neyðarlínuna og hljóp að slysstaðnum. „Þá mætti mér stelpa sem var minnst slösuð, ég var þá búinn að hringja í Neyðarlínuna enda hélt ég að ég væri að koma að alvarlegu slysi en sem betur fer voru allir í beltum. Það hefur bjargað þeim.

En konan sem ók bílnum lenti einhvern veginn hálf út úr bílnum og hann lá ofan á brjóstkassanum á henni. Ég heyrði hana segja eitthvað þannig að hún var greinilega með meðvitund. Þannig að ég setti bakið í bílinn og lyfti honum og stelpan togaði bílstjórann út. Ég hélt bílnum uppi á meðan ökumaðurinn var dreginn út. Ég efast um að hún hefði lifað lengi með bílinn ofan á sér,“ segir Valur. Karlmaður var fastur í flaki bílsins og sjúkraflutningamenn náðu honum út síðar með klippum.

Beltin björguðu

Ökumaðurinn og báðir farþegarnir voru flutt með sjúkraflugi á slysadeild Landspítala þar sem gert var að sárum þeirra. Konan sem ók bílnum var viðbeinsbrotin og hlaut ýmsa aðra áverka. Farþegarnir voru minna slasaðir en allir voru með beltin spennt, sem fyrr greinir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert