Munu óska aðstoðar úr Bjargráðasjóði

Skaftárhlaupið var gríðarlega stórt í ár og olli talsverðum skemmdum.
Skaftárhlaupið var gríðarlega stórt í ár og olli talsverðum skemmdum. mbl.is/Rax

Farið verður fram á einhverskonar aðstoð úr Bjargráðasjóði vegna Skaftárhlaups og þess tjóns sem hefur hlotist vegna þess. Þá verður einnig farið fram á að opinberar stofnanir, t.d. Landgræðslan og Vegagerðin, hlusti á áhyggjur heimamanna vegna ástandsins og mögulegra áhrif af framtíðar hlaupum. Þetta segir Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps, í samtali við mbl.is

Fulltrúar hreppsins munu í dag hitta Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og sýna honum hamfarasvæðið.

Þarf að skýra hvernig tekið verði á náttúruhamförum

Eva segir enn óljóst með tjón, því vatnið þurfi að sjatna niður áður en hægt er að meta það að fullu. Segir hún ekki öll kurl komin til grafar enn og mikið vatn vera yfir svæðinu. „Það þarf að skýra það fyrir okkur hvaða hlutverk Bjargráðasjóður hefur og hvaða tól og áhöld við höfum til að takast á við svona,“ segir Eva og bætir við að það sé talsvert óljóst hver hefur hvaða hlutverk í náttúruhamförum, hvernig tryggingum og öðru sé háttað.

Ánægð með Almannavarnir

Hún segir að hún og íbúar á svæðinu séu ánægðir með hvernig Almannavarnir hafi brugðist við þessum málum og að ljóst sé að kerfi þeirra sé að virka vel. Það þurfi aftur á móti að skoða framtíðamál með öðrum, svo sem Vegagerð og Landgræðslunni og segir hún að meðal annars þurfi að skoða hvort árnar séu að breyta um farveg og áhrifin af því. Þá þurfi að skoða hvernig brýr séu gerðar yfir svona stórfljót og að öruggt sé að þær standist svona áhlaup sem gætu farið að verða reglulegur gestur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert