„Þetta er eins og hafsjór enn þá“

Bærinn Svínadalur í Skaftártungum. Myndin er tekin þegar hlaupið var …
Bærinn Svínadalur í Skaftártungum. Myndin er tekin þegar hlaupið var í hámarki, en sjá má á henni hversu hátt vatnið fór við marga bæi. Ekki er búið á Svínadal, en bændur í nágrenninu nýta tún bæjarins. Rax / Ragnar Axelsson

Hluti túna í Skaftártungu er enn á kafi í vatni eftir Skaftárhlaupið og miklar rigningar í kjölfarið. Talsverður leir er á þeim túnum sem vatn flæddi yfir og lýsir bóndi á svæðinu því þannig að skór verði eins og í steypuvinnu þegar gengið er á túnunum.

Skórnir eins og eftir steypuvinnu

Sigurgeir Gíslason er bóndi á bænum Flögu í Skaftártungu. Hluti túna á landi hans fór undir vatn þegar lónaði upp eftir jökulhlaupið. Segir hann að þessu hafi fylgt mikill leir, jafnvel þótt túnin hafi ekki verið í straumvatni í sjálfu sér. Þannig segir hann túnin og beitaland sem hafi farið undir vatn vera óbeitarhæf nema vel skolist af þeim. „Ef labbað er um túnin þá verða skórnir gráir eins og í steypuvinnu,“ segir Sigurgeir.

Þar kemur rigning undanfarna daga sér ágætlega, en hún er þó í allt of miklu magni að sögn Sigurgeirs og að hún hafi leitt til þess að áfram liggi mikið vatn á túnum. Segist hann meðal annars hafa áhyggjur af því hvernig grasið undir vatninu taki svona gífurlegu vatnsmagni og að vera undir vatni í langan tíma. Þá gæti þetta að hans sögn ýtt undir frostskemmdir fari að frysta fljótlega.

Túnin eins og hafsjór

„Þetta er eins og hafsjór enn þá,“ segir Sigurgeir og bætir við að allir skurðir séu stútfullir af vatni. Þá geri veðurspáin ráð fyrir því að það rigni í dag og á morgun og svo aftur á laugardaginn. Það lítur því ekki út fyrir að mikið sjatni á túnunum fyrr en í næstu viku. Aðspurður hvort mikið tjón hafi orðið segir hann ljóst að það sé eitthvað. Hann hafi þó ekki getað metið það enn þá.

Þarf að skoða þessi mál í heild

„Maður er orðinn þreyttur á þessu vatnsflóði, það kemur annað hvert ár og það má varla rigna og þá hækkar verulega í þessu,“ segir Sigurgeir og ljóst er að hann telur þörf á að ráðist sé í einhverjar aðgerðir. Hann segir bætur fyrir tjón í svona málum ekki skipta öllu máli, heldur þurfi að horfa til þessa máls í heild og hvað gera eigi til að koma í veg fyrir landrof og flóðahættu þegar þessi flóð komi.

Segir hann bæði áhuga fjölmiðlamanna og ráðamanna aukast í kringum hamfarirnar en að hann sjatni svo alveg eins og vatnið þegar á líður. „Í raun ætti að kíkja á þetta þegar vatnið er farið og drullan og eyðileggingin sitja eftir,“ segir hann.

Þegar flóðin náðu hámarki fór vatn talsvert nærri bænum Hvammi …
Þegar flóðin náðu hámarki fór vatn talsvert nærri bænum Hvammi í Skaftártungum. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert