Deiliskipulag Grundarstígsreits fellt úr gildi

Menningarhúsið Hannesarholt er starfrækt að Grundarstíg 10.
Menningarhúsið Hannesarholt er starfrækt að Grundarstíg 10. Árni Sæberg

Óvíst er hvaða áhrif ef einhver úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um að fella skuli úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur um að samþykkja deiliskipulag fyrir Grundarstígsreit hefur á starfsemi Hannesarholts. Formaður skipulagsráðs segir engar kvartanir hafa borist vegna hennar.

Úrskurður nefndarinnar varðar samþykkt Reykjavíkurborgar á deiluskipulagi fyrir reitinn frá árinu 2011. Í stuttu máli gerir nefndin athugasemd við málsmeðferðina hjá borginni og að breytingar sem voru gerðar á greinargerð með deiliskipulaginu í kjölfar athugasemda Skipulagsstofnunar hafi ekki verið lagðar fyrir og samþykktar í borgarráði áður en skipulagið var auglýst í Stjórnartíðindum.

Nokkrir íbúar í nágrenni Hannesarholts, sem gerðu athugasemdir við að leyfi hafi verið gefið fyrir starfsemi Hannesarholts, kærðu ákvörðun borgarráðs um að samþykkja deiliskipulag fyrir Grundarstígsreitinn þegar árið 2011. Þeir óttuðust meðal annars hávaða, aukna umferð og meðfylgjandi skort á bílastæðum.

Kröfðust kærendurnir þess að sérskilmálar í deiliskipulaginu fyrir Grundarstíg 10, þar sem menningarhúsið Hannesarholt er starfrækt, sem heimila byggingu samkomusalar, kaffihús, rekstur veitingasalar og samkomu- og tónleikahald í húsinu yrðu felldir úr gildi.

Bíða skýringa lögfræðinga á úrskurðinum

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamál úrskurðaði loksins í málinu á dögunum og komst að þeirri niðurstöðu að samþykktin á deiliskipulaginu skyldi felld úr gildi. Í úrskurðinum kemur fram að uppkvaðning hans hafi dregist verulega sökum fjölda mála sem skotið hafi verið til nefndarinnar.

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segist ekki geta tjáð sig um málið fyrr en skýringar lögfræðinga umhverfis- og skipulagssviðs á úrskurðinum liggi fyrir. Bréf frá úrskurðarnefndinni um hann hafi fyrst borist í kringum helgina. Í fljóti bragði sýnist honum að verið sé að fetta fingur út í málsferð borgarinnar.

Hann segist ekki geta sagt til um hvaða áhrif úrskurðurinn hefur á starfsemi Hannesarholts. Sumir íbúar hafi haft áhyggjur af ónæði af völdum starfseminnar þar en frá því að hún hófst hafi hann ekki heyrt annað en að starfsemin sé að flestu leyti til fyrirmyndar. Engar kvartanir hafi borist honum sem formanni skipulagsráðs vegna starfsemi Hannesarholts.

Forsvarsmenn Hannesarholts voru sjálfir nýbúnir að fá úrskurðinn í hendur og voru ekki tilbúnir til að tjá sig um hann þegar eftir því var leitað í dag.

Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert