Rétt að refsa eða ræða málin?

Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. mbl.is/Golli

Hversu langt er ásættanlegt að sé gengið í að takmarka tjáningarfrelsi fólks? Þessi spurning vaknar við lestur ítarlegs viðtals við Björgu Thorarensen, lagaprófessor við Háskóla Íslands, í nýjasta tölublaði Tímarits Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík sem kom út í dag. Viðtalið er tekið í kjölfar fyrirlesturs sem Björg flutti á Lagadeginum fyrr á þessu ári um sama efni.

Björg ræðir í viðtalinu meðal annars þróun lagasetningar á þessu sviði hér á landi og erlendis. Hér á landi er einkum um að ræða 233. gr. a almennra hegningarlaga sem hjóðar svo: „Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

Tjáningarfrelsið stjórnarskrárvarinn réttur

Fram kemur í viðtalinu að frá því að ákvæðið kom fyrst til sögunnar hafi smám saman verið aukið við það og um leið þrengt að tjáningarfrelsinu. Upphaflega hafi ákvæðið aðeins náð til haturs á grundvelli kynþátta og þjóðernis en síðan hafi það verið látið ná til fleiri hópa. Þá hafi að sama skapi verið gerð sú krafa upphaflega að ummælin fælu í sér árás á hóp manna. Síðar hafi verið fallið frá þeim kröfum. Stöðug þrenging ákvæðisins lýsi frekar ákveðinni pólitískri rétthugsun. Þá verði að hafa í huga að slík þrenging megi ekki ganga gegn stjórnarskránni.

Þannig falli tjáningarfrelsið undir grundvallarmannréttindi sem varin séu bæði í stjórnarskrá Íslands og Mannréttindasáttmála Evrópu. Takmörkun á tjáningarfrelsinu verði því að teljast algert þrautaúrræði enda um að ræða frávik frá þeirri meginhugmynd að það sé þungamiðja í lýðræðislegu samfélagi. Takast þurfi á við spurningar eins og til að mynda þá hvort gagnrýni á byggingu mosku sé hatursáróður eða hvort það sé einmitt markmið lýðræðissamfélaga að leyfa umdeildar skoðanir í opinberri umræðu og takast á við þær á sama vettvangi með andsvörum.

Leyfilegt að hneyksla, stuða og móðga

Björg bendir á að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi í umfangsmikilli dómaframkvæmd staðfest að ummæli sem hneyksli, stuði og móðgi séu leyfð, en það séu einmitt þau ummæli sem helst reyni á þegar fjallað sé um vernd tjáningarfrelsisins. Íslenskir dómstólar hafi litið til sambærilegra sjónarmiða. Ekki sé hægt að stytta sér leið með því að þrengja ákvæðið í almennum hegningarlögum ef það er ekki í samræmi við vernd tjáningarfrelsisins í stjórnarskránni og Mannréttindasáttmálanum. Það geti einfaldlega skapað falskar vonir.

Spurð hver tillaga hennar yrði ef hún sæti á Alþingi segir Björg að setja mætti inn í ákvæðið skýrari viðmið um það hvenær tjáning væri orðin það alvarleg að hún félli undir það. „Til að mynda held ég að það hafi verið vanhugsað á sínum tíma að taka út kröfuna um að ummælin beindust gegn hópi manna og ég myndi vilja skerpa á því að tjáningin yrði að vera nógu alvarleg til að teljast árás, ekki bara opinbert háð og rógburður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert