„Algjört viljaleysi stjórnvalda“

Lögreglumenn við Stjórnarráðið.
Lögreglumenn við Stjórnarráðið. mbl.is/Styrmir Kári

Félag íslenskra rannsóknarlögreglumanna lýsir yfir þungum áhyggjum vegna þeirrar stöðu sem kjarasamningar ríkisins við lögreglu eru í. Svo segir í yfirlýsingu frá félaginu sem send var Gunnari Björnssyni, formanni samninganefndar ríkisins, í dag.

„Eftir margra ára stanslausan niðurskurð í löggæslu almennt, að viðbættum sífellt versnandi launakjörum, er svo komið að lögreglan er komin að þolmörkum,“ segir í yfirlýsingunni.

„Á sama tíma og lögreglumenn standa frammi fyrir nýjumáskorunum í almennri löggæslu og rannsóknum sakamála sem krefjast sífellt meiri sérþekkingar, mæta þeir algjöru viljaleysi stjórnvalda við að koma til móts við sanngjarnar kröfur þeirra í kjaramálum.“

Segir í yfirlýsingunni að stjórn félagsins raunverulega hættu á því að reynslumiklir lögreglumenn með ómetanlega sérþekkingu hverfi til annarra starfa og að af því hljótist tjón sem seint verði bætt.

Skorar stjórnin á samninganefd ríkisins að ganga til samninga við lögreglumenn nú þegar með sanngirni að leiðarljósi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert