Fræða jafnaldra sína um „sexting“

Unglingar á leið af tónlistarhátíð Samfés árið 2011.
Unglingar á leið af tónlistarhátíð Samfés árið 2011. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Á landsmóti Samfés á Akureyri helgina 9.-11. október ræðst ungmennaráð Samfés í stærsta jafningjafræðsluverkefni á Íslandi til þessa. Í vetur hafa meðlimir ungmennaráðs unnið að gerð námskeiðs í jafningjafræðslu um „sexting“ til þess að fræða ungt fólk um hvað „sexting“ er og afleiðingar þess.

Á námskeiðinu er litið á „sexting“ – þá iðju að senda klúr eða kynferðisleg skilaboð í gegnum samskiptaforrit- frá nokkrum sjónarhornum til þess að hjálpa unglingum að setja sig í spor annarra; sjónarhorni unglingsins, foreldra, starfsmanna sem vinna með unglingum, sendanda, móttakanda og þeirra sem dreifa.

Þátttakendur á landsmóti, rúmlega 300 unglingar og 60 starfsmenn, fara á námskeiðið á Akureyri og gefst kostur á að framkvæma námskeið í sinni félagsmiðstöð þegar heim er komið.

Þetta er þriðja jafningjafræðslunámskeiðið sem ungmennaráð skipuleggur. Áður hefur það skipulagt fræðslu um mannréttindi og einelti og farið um landið til þess að fræða ungt fólk en nú er stefnt að því að fræða yfir tvö þúsund unglinga.

Landsmót Samfés verður sett á Ráðhústorginu á Akureyri á föstudagskvöldið, að setningarathöfninni lokinni verða kosnir nýir fulltrúar í ungmennaráð Samfés og svo verða málefni ungs fólks rædd fram á kvöld. Á laugardeginum gefst þátttakendum að taka þátt í fjölbreyttum smiðjum sem starfsmenn félagsmiðstöðva sjá um, s.s. rappsmiðju, ræðumennsku og umfjöllun um mannréttindi. Þá verður boðið uppá smiðjur í ýmiskonar handverki s.s. koparfólíugerð og hvernig á að búa til nýja flíkur úr gömlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert