Gistináttagjald renni til sveitarfélaga

Ráðhús Reykjavíkur
Ráðhús Reykjavíkur mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Á fundi borgarráðs í morgun var aðgerðaráætlun em miðar að því að draga úr rekstrarhalla hjá Reykjavíkurborg samþykkt. Meðal þess sem samþykkt var er að teknar verði upp viðræður við ríki og hagsmunaaðila um að gistináttagjald renni til sveitarfélaga og að þau fái jafnframt hlutdeild í virðisaukaskatti af ferðaþjónustu. Þá stendur til að útfæra og innleiða gjaldskyldu í rútustæði í miðborginni.

Áður hafði borgarráð samþykkt tillögur sem herða reglur um ábyrgð stofnana og sviða í fjármálum og tillögu um að draga úr nýráðningum með sérstakri ráðningarýni. Samkvæmt tilkynningu frá borginni var samstaða um aðgerðirnar en frekari vinna sem lýtur að fjárhagsáætlun næsta árs og fimm ára áætlun er framundan.Að auki samþykkti borgarráð í morgun með einni hjásetu að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir breytingum á tekjustofnum sveitarfélaga.

1.   Sérstök eftirfylgni verði með niðurstöðum sex mánaða uppgjörs og níu mánaða uppgjörs til að draga úr halla sem flyst milli ára.

a.   Borgarstjóri leggi fram endurskoðaða áætlun um lóða- og eignasölu þannig að fjárhagsáætlun ársins um sölu byggingarréttar gangi eftir.

b.   Borgarstjóri beini því til allra sviða borgarinnar að hægja á/eða leggja af verkefni sem ekki er hægt að hagræða á móti, ekki eru farin af stað eða eru ekki tekjuskapandi. Dregið verði úr aðkeypti ráðgjöf eins og kostur er.

c.   Sviðsstjórar geri sérstaka grein fyrir aðgerðum til að koma í veg fyrir framúrkeyrslu, þar sem í hana stefnir, og kalli eftir greinargerðum og tillögum um aðgerðir þar sem starfsstöðvar stefna fram úr fjárheimildum.

2.   Unnið verði gegn svartri atvinnustarfsemi og rangri skráningu fasteigna í samvinnu við skattayfirvöld og fasteignaskrá.

3.   Fjármálastjóri fundi með fjársýslu ríkisins og ríkisskattstjóra vegna skila á útsvari og skili borgarráði greinargerð um málið.

4.   Ferðamannagjöld.

a.   Teknar verði upp viðræður við ríki og hagsmunaaðila um að gistináttagjald renni til sveitarfélaga.

b.   Sveitarfélög fái hlutdeild í virðisaukaskatti af ferðaþjónustu, auknum innflutningsgjöldum af bílaleigubílum og fjármagnstekjuskatti af leigutekjum.

c.   Gjaldskylda í rútustæði í miðborginni verði útfærð og innleidd.

5.   Leiðréttingar verði sóttar í ríkissjóð vegna vanfjármögnunar á málaflokki fatlaðs fólks, hjúkrunarheimilum og tónlistarskólum í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.

6.   Lögð verði fram greinargerð um lífeyrisskuldbindingar og þróun þeirra í ljósi nýgerðra kjarasamninga, breytinga á lífaldri og stöðu Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar og Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga.

Aðgerðir sem samþykktar voru í borgarráði þann 1. október sl.

7.  Reglur um flutning halla og afgangs innleiddar á sviðum, stofnunum og starfseiningum, sbr. ákvörðun borgarráðs sl. vor og útfærslu fjármálaskrifstofu sem staðfest hefur verið af borgarráði.

8.   Ráðningarýni. Innleidd verði miðlæg ráðningarrýni sem gildi til áramóta vegna nýráðninga annarra sviða en umhverfis- og skipulagssviðs og menningar- og ferðamálasviðs, skv. sérstökum reglum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert