Samingurinn verði lögfestur

mbl.is/Ernir

Krafa um að stjórnvöld fullgildi og lögfesti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk á haustþingi 2015 var samþykkt á aðalfundi Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) sem fram fór um síðustu helgi. Fram kemur í ályktuninni að þannig verði réttur fatlaðs fólks til virkrar þátttöku í samfélaginu tryggður til jafns við þátttöku annarra.

Meðal þess sem samningurinn kveður á um er réttur fatlaðs fólks til viðunandi lífskjara og til sífellt batnandi lífsskilyrða til jafns við aðra. Einnig réttur fatlaðs fólks til félagslegrar verndar, aðgangs að aðstoð frá hinu opinbera til þess að mæta útgjöldum vegna fötlunar og aðgengi að húsnæðiskerfi á vegum hins opinbera. 

Einnig er kveðið á að fötluðu fólki sé tryggt aðgengi að mannvirkjum, samgöngum, upplýsingum og upplýsingatækni auk þess erm sjónvarpsefni skuli mæta þörfum fatlaðs fólks. Ennfremur að gera skuli fötluðu fólki kleift að fara allra sinna ferða eftir því sem frekast er unnt með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það kjósi.

Sömuleiðis er lögð áhersla á rétt fatlaðs fólks til heilbrigðisþjónustu á við aðra sem og til menntunar á öllum skólastigum með viðeigandi aðlögun og án aðgreiningar. Þá er einnig kveðið á um rétt fatlaðs fólks til jafns við aðra til að lifa sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í samfélaginu. 

Ályktunin er svohljóðandi:

„Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) krefst þess að stjórnvöld fullgildi samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) á haustþingi 2015, ásamt valfrjálsri bókun hans og gangi svo strax í að lögfesta hann. Þannig eiga stjórnvöld að efla og tryggja mannsæmandi framfærslu, ásamt aðgengi, algildri hönnun, heilbrigðisþjónustu, menntun og atvinnu við hæfi. Með lögfestingu SRFF verður réttur fatlaðs fólks til virkrar þátttöku í samfélaginu tryggður til jafns við þátttöku annarra. Undir samninginn rúmast öll baráttumál ÖBÍ meðal annars kjaramál, aðgengi, heilbrigðismál, atvinnumál, menntamál og sjálfstætt líf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert