Sendur í steininn eftir enn eitt brotið

mbl.is/Júlíus

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í þriggja mánaða fangelsi fyrir ölvunarakstur. Manninum er nú gerð refsing í fjórða sinn fyrir ölvunarakstur og þriðja sinn fyrir að aka sviptur ökurétti.

Það er ævilöng ökuréttarsvipting mannsins áréttuð. 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákærði manninn í maí sl. fyrir umferðarlagabrot, en ákæran er í tveimur liðum. Í þeim fyrri var hann sakaður um að hafa ekið bifreið á Suðurlandsvegi við Gljúfurholt í Ölfusi sviptur ökurétti á 111 km hraða, en þar er leyfilegur hámarkshraði 90 km á klst. Héraðsdómur sýknaði hann af þessum lið.

Í síðar lið ákærunnar, var hann sakaður um að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis um Tjarnarbraut í Hafnarfirði. 

Maðurinn, sem er erlendur, neitaði sök fyrir dómi. Hann kvaðst ekki hafa verið ökumaður samkvæmt fyrri ákæruliðnum og ekki hafa ekið bifreiðinni eins og segir í seinni ákæruliðnum. 

Hvað varðar seinni ákæruliðinn, þá komu tveir lögreglumenn fyrir dóminn og staðfestu báðir að þeir hefðu séð til manninn bakka bifreiðinni inn innkeyrsluna og að bílskúr sínum. Þá kváðu þeir báðir að þeir myndu eftir atvikinu. Er vitnisburður þeirra trúverðugur að mati héraðsdóms. Þrátt fyrir neitun ákærða taldi dómurinn sannað, með vísan til framburðar tveggja lögreglumanna, að maðurinn væri sekur og var hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi og gerð refsing fyrir.

Maðurinn hefur frá árinu 2004 í nokkur skipti verið dæmdur til greiðslu sektar fyrir ölvunarakstur og sviptur ökurétti. Í eitt skipti var hann dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir sömu brot. Þá var hann dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsið árið 2012 fyrir líkamsárás og fleiri hegningarlagabrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert