„Það býr kraftur og viska í norðrinu“

Yoko Ono er stödd í Reykjavik en á morgun, föstudaginn 9. október verður Friðarsúlan í Viðey tendruð í níunda sinn. John Lennon hefði orðið 75 ára þennan dag. Ono segir hverja tendrunarathöfn vera fallega og einstaka og að hún vonist til þess að friðarboðskapurinn nái frá ljósinu á Íslandi um heim allan. 

Ono býður upp á fría siglingu yfir Sundið. Siglt verður frá Skarfabakka frá klukkan 17.30 til kl. 19.20. Fríar strætóferðir verða frá Hlemmi að Skarfabakka og til baka. Fyrsti vagn fer kl. 17.15 frá Hlemmi og síðan á tuttugu mínútna fresti til kl. 19.00. Að athöfn lokinni siglir fyrsta ferja frá Viðey kl. 21.00 en þá verður hægt að taka strætó frá Skarfabakka að Hlemmi. 

Dagskráin hefst í Viðeyjarnausti klukkan 17.30 með fjölskyldusmiðju á vegum Listasafns Reykjavíkur. Klukkan 18.99 verður leiðsögn um byggð og sögu í Viðey. Klukkan 18.30 hefst tónlistarflutningur Ólafar Arnalds og svo mun Karlakór Reykjavíkur syngja við Friðarsúluna kl. 19.45. Friðarsúlan verður tendruð kl. 20.00. 

Kynnir kvöldsins er Felix Bergsson og eftir tendrunina mun hljómsveitin Friends 4 Ever leika til kl. 21.30. 

Gestum gefst kostur á að skoða sýningu dóttur Yoko Ono, Kyoko Ono, inni í Viðeyjarstofu að lokinni tendrunarathöfn. 

Allar frekari upplýsingar eru á www.videy.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert