Fimm kynferðisbrot tilkynnt á Þjóðhátíð

Fimm kynferðisbrot voru tilkynnt sem áttu sér stað í umdæmi lögreglustjórans í Vestmannaeyjum á tímabilinu 30. júlí til 3. ágúst 2015. Þetta segir í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar, þingsmanns Pírata, varðandi kynferðisbrot á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í ár.

Fyrirspurning er svohljóðandi:

„Hversu margar tilkynningar um kynferðisbrot annars vegar og kærur vegna kynferðisbrota hins vegar bárust lögregluyfirvöldum í tengslum við þjóðhátíð í Vestmannaeyjum 2015?“

Fram kemur í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra, að ráðuneytið hafi óskað eftir umsögn embættis lögreglustjórans í Vestmannaeyjum.

„Í umsögn embættisins, dags. 30. september 2015, kemur fram að til lögregluyfirvalda voru tilkynnt fimm kynferðisbrot sem áttu sér stað í umdæmi lögreglustjórans í Vestmannaeyjum á tímabilinu 30. júlí til 3. ágúst 2015,“ segir í svarinu.

Þá er birtur listi yfir þau brot sem tilkynnt var um, hvenær þau áttu sér stað og hvar og hvenær þau voru kærð eða tilkynnt.

  • 31. júlí:        Kynferðisbrot, nauðgun, misneyting, kært 6. ágúst hjá lögreglustjóranum á höfuð­borgar­svæðinu.
  • 1. ágúst:    Kynferðisbrot, nauðgun, tilkynnt 2. ágúst hjá lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum.
  • 1. ágúst:    Kynferðisbrot, blygðunarsemi, kært 5. ágúst hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi.
  • 1. ágúst:    Kynferðisbrot, kynferðisleg áreitni, kært 4. ágúst hjá lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum.
  • 2. ágúst:    Kynferðisbrot, nauðgun, kært 2. ágúst hjá lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert