Frelsun geirvörtunnar verðlaunuð

Adda Þóreyjar- og Smáradóttir tekur Völu systur sína með til …
Adda Þóreyjar- og Smáradóttir tekur Völu systur sína með til Taívan. Adda er til hægri á myndinni. mbl.is

Í mars á þessu ári þegar „dagur frelsunar geirvörtunnar“ (e. Free the Nipple) var haldinn hátíðlegur í Verslunarskóla Íslands, vakti hin 16 ára gamla Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir þjóðarathygli. Hún birti mynd af sér berbrjósta á samfélagsmiðlinum Twitter, til þess að benda á að geirvörtur hennar hefðu ekki sömu stöðu og geirvörtur skólabræðra hennar.

Adda er nú skiptinemi á Spáni. Nýverið bárust henni fregnir um það frá Taívan að hún væri boðin á ungmennaráðstefnu í Taívan frá 14.-24. október nk., auk þess sem henni yrðu veitt verðlaun fyrir jafnréttisbaráttu.

„Þetta var útskýrt fyrir mér, af þessum fulltrúa frá Taívan, að ég ætti að fá þessi verðlaun fyrir hlut minn í Free the Nipple heima á Íslandi, fyrir að berjast fyrir kvenréttindum og að gera það sem ég get til þess að breyta heiminum og bæta,“ sagði Adda, þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hennar á Spáni.

Adda segist til að byrja með hafa haldið að einhver væri bara að atast í henni eða stríða, en við skoðun hafi komið á daginn að þetta var alvöruboð.

Pabbi Öddu, Smári Þórarinsson, (móðir hennar, Þórey Einarsdóttir, lést fyrir fimm árum) setti tvö skilyrði fyrir því að hún fengi að þekkjast boðið. Hún fengi leyfi skiptinemasamtakanna fyrir því að fara og að hún færi í ferðina með fullorðnum fylgdarmanni.

Stóra systir fer með

„Það var auðsótt mál. Skiptinemasamtökin voru bara ótrúlega stolt af því að ég hefði verið valin og fjöldi manns bauðst til þess að fylgja mér. Fyrir valinu varð Vala, stóra systir mín, og þeir sem standa fyrir ráðstefnunni borga líka allt fyrir hana, sem er bara meiriháttar,“ sagði Adda. Hún hlakkar til fararinnar og segist líta á þetta sem ótrúlegt tækifæri. „Það eru algjör forréttindi að hafa orðið fyrir valinu og ég er mjög spennt að hitta hina krakkana í verðlaunahópnum.“

Ráðstefnan heitir 10th Global Youth Leadership Conference og eru verðlaunin Youth of the Year Award 2015, Taívan. Í ár er titill ráðstefnunnar Changing the world by taking action. Fimm verðlaunahafar koma til ráðstefnunnar og verður Adda eini fulltrúi Vesturlanda í þeim hópi. Ungmennin sem verðlaunuð verða eru öll yngri en 18 ára. Auk Öddu eru þau sem tilnefnd eru frá Sýrlandi, Malaví, Tansaníu og Taívan.

Safnað fyrir vatnsbrunnum

Adda segir að ráðstefnan Global Youth Leadership Conference verði nú haldin í tíunda skiptið í Taívan. Í ár er yfirskrift ráðstefnunnar Changing the World by Taking Action, sem mætti þýða á íslensku eitthvað á þessa leið: Að breyta heiminum með því að láta verkin tala. Ungmenni alls staðar að úr heiminum hafa alltaf verið boðin til ráðstefnunnar.

Góðgerðarmál eru jafnan í brennidepli á ungmennaráðstefnunni. Til dæmis hefur undanfarin níu ár peningum verið safnað fyrir vatnsbrunnum í Svasílandi, í Afríku, með táknrænni göngu, „Walk for Water“ (Gengið eftir vatni), og er göngunni ætlað að endurspegla göngu sem margir hverjir þurfa að ganga í Svasílandi til að komast í hreint vatn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert