Klukkutíma bið eftir vegabréfaskoðun

Biðin í röðinni getur tekið allt að klukkutíma.
Biðin í röðinni getur tekið allt að klukkutíma.

Mikil veikindi meðal lögreglumanna hafa gert það að verkum að landamæraeftirlit í Leifsstöð er í miklum hægagangi. Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að í morgun hafi tafir verið á bilinu 30 til 60 mínútur, þar sem helmingi færri lögreglumenn en venjulega sinntu vegabréfaeftirliti. Nú taki bið í röðinni klukkutíma.

Frétt mbl.is: Mikil veikindi meðal lögreglumanna

„Í morgun voru fimm að sinna landamæraeftirlitinu,“ segir Guðni, sem segir að það sé helmingi færri en venjulega. „Þetta tefur og það myndast raðir. Það er mikil traffík til Bretlands og Bandaríkjanna og aðallega vegabréfaskoðun fyrir það.“

Mestu tafirnar voru að sögn Guðna um klukkutími og algengt var að flug tefðist um hálftíma. Hann hafði ekki upplýsingar um hvort þessar tafir hafi gert það að verkum að farþegar hafi misst af tengiflugi, en samkvæmt upplýsingum mbl.is er tilkynnt í hátalarakerfi flugstöðvarinnar að beðið sé eftir öllu tengiflugi.

„Við kölluðum til þjónustulið okkar til að upplýsa farþega og gefa þeim hressingu í röðinni svo fólk væri ekki æst að reyna að hlaupa framfyrir röðina,“ segir Guðni.

Fjórar vegabréfaeftirlitsstöðvar eru þessa stundina í notkun en venjan er að 10 til 12 stöðvar séu opnar. Rétt fyrir klukkan fimm sagði Guðni að bið í röðinni sem fólk þarf að standa í til að fá vegabréf sitt skoðað taki að minnsta kosti klukkutíma.

Farþegi á leið til Bandaríkjanna sem mbl.is ræddi við sagði að vélin hennar hafi átt að fara í loftið klukkan 16:45, kortéri áður en þetta er skrifað, og að hún byggist enn við að standa lengi í röð, sem hún hafi þegar staðið í í 45 mínútur.

Hún sagði þó að barnafjölskyldur hafi verið teknar út fyrir röðina og hleypt framfyrir. Farþeginn benti hins vegar á að skortur væri á upplýsingum um hvers vegna þessar tafir væru, sérstaklega til erlendra farþega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert