Sá eini sem ekki var boðið í afmælið

Drengurinn er með hegðunarvanda en móðir hans segir það ekki …
Drengurinn er með hegðunarvanda en móðir hans segir það ekki réttlæta framkomu skólayfirvalda og foreldra í hans garð. Sviðsett mynd. Árni Sæberg

Móðir drengs í 6. bekk í grunnskóla á Akureyri segir son sinn hljóta ósanngjarna meðferð af hálfu skólayfirvalda og foreldra skólasystkina sinna.

Drengurinn hafi ekki fengið tækifæri til að segja sína hlið þegar hann lenti í slagsmálum og er sá eini í bekknum sínum sem er ekki boðinn í afmæli eins bekkjarsystkinis síns. Segir hún son sinn enda hvern skóladag með því að segjast ekki vilja fara aftur í skólann.

„Ég veit að sonur minn er ekki fullkominn og á erfitt með að umgangast suma krakka, en það er ekki honum að kenna og hann á ekki að borga fyrir það með því að krakkar i bekknum loki á hann og stríði honum,“ skrifar móðirin í tölvupósti til mbl.is þar sem hún lýsir málavöxtum.

Sonur hennar glímir við hegðunarvanda og njóta þau sérstakrar aðstoðar barnaverndar vegna hans. Móðir drengsins hefur ýtt á að honum verði komið í greiningarferli og segist sjá mikið líkt í honum og bróður hans sem er með ADHD og á einhverfurófi.

Hún segir son sinn ekki saklausan af öllu en þegar tveir eða fleiri ráðast á móti honum og enginn virðist hafa áhuga á að leysa úr málunum á mannlegan hátt geti hún ekki setið lengur og horft á.

„Já, lítur hann á þetta svona“

Móðirin segir að í gegnum skólagönguna hafi sonur hennar lokað á að hleypa öðrum inn af ótta við að vera strítt. Hann vilji ekki fara í sund þar sem hann óttist að þar sé talað um sig og hann geti ekki gengið framhjá sumum drengjum í skólanum án þess að vera gefinn fingurinn. Segir hún tækifæri hans til að leika við önnur börn oft eyðilögð fyrir honum og að fötin hans hafi verið falin fyrir honum.

Nýlega lenti drengurinn í ryskingum við aðra drengi í skólanum þar sem honum var meðal annars haldið niðri og hann bitinn í kinnina. Móður drengsins var gert viðvart um atvikið, það gerði hjúkrunarfræðingur skólans.

Sá hafði verið beðinn um að senda móðurinni tölvupóst en ákvað  að hringja þess í stað. Hún furðar sig á því að skólastjóri eða kennari drengsins hafi ekki haft samband við hana með beinum hætti til að ræða málið. Segir hún drenginn hafa verið dofinn þegar heim var komið og að hann hafi lítið sagt en að hann hafi sýnilega verið sár.

Í kjölfar atviksins var kallað til fundar í skólanum með foreldrum og börnum en hvorki hún né sonur hennar voru boðuð á fundinn.

„Þegar ég hringdi og spurði af hverju við hefðum ekki verið kölluð til fékk ég svarið að þolendur og gerendur eru ekki kallaðir saman til þess að funda. En sonur minn fékk ekki að segja sína hlið, bara hinir,“ segir móðir drengsins.

„Í þessu símtali reyndi ég að segja hans sögu en svarið var „Já, lítur hann á þetta svona?“ Þetta svar frá fullorðinni manneskju sem á að vita betur er út í hött. Þó að hann hafi gert eitthvað líka þá voru þeir fleiri en einn á móti honum einum.“

Hún furðar sig á því að fullorðna fólkið, foreldrar, kennarar og skólastjórnendur, taki ekki á málinu í sameiningu og sýni börnunum þannig gott fordæmi.

Sá eini sem fer ekki í afmælið

Hún segir steininn hafa tekið úr í gær þegar öllum bekknum var boðið í afmæli nema syni hennar. Skólinn hafi rætt við foreldra barnsins en staðan sé enn óbreytt.

„Hann fór ekki í skólann í morgun því hann sagðist ekki vilja vera innan um hina krakkana sem væru spenntir fyrir kvöldinu, meðan hann sæti hjá.“

Hún segist aldrei myndu leyfa syni sínum að skilja aðra útundan með þessum hætti og að raunar ættu að vera reglur í öllum skólum um að þegar kæmi að afmælum bæri að bjóða öllum drengjunum, öllum stúlkunum eða einfaldlega öllum börnunum í bekknum jafnvel þó að ekki allir eigi samleið.

„Hann á erfiðara með mannleg samskipti en við hin en mér finnst að menntayfirvöld eigi að stíga inn í og hjálpa honum frekar en að ýta honum út í horn. Sérstaklega þar sem barnayfirvöld eru með hans mál á sínu borði og því ætti skólinn að vera meðvitaður um það sem hann er að glíma við.“

„Hættum að tala um einelti og förum að gera eitthvað! Kennum krökkunum að þó að einhver sé öðruvísi þá er hann manneskja eins og við hin. Enginn er fullkominn og við eigum ekki að mismuna fólki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert