Bognir naglar og brenndar sálir

mbl.is/Júlíus

Það var einn bjartan sumardag þegar ég var um tvítugt að ég mætti á Hverfisgötu 113 til að fara á grunnnámskeið fyrir sumarafleysingalögregluþjóna. Ég var þá í framhaldsnámi og hafði heyrt frá mági mínum sögur af ævintýrum er hann hafði lent í sumarið áður. Fiskvinnsla á sumrin kom ekki lengur til greina hjá mér, þetta skyldi verða sumarið þegar ég yrði að manni. Ég var sendur á fyrsta degi niður í Últíma og látinn máta matrósargalla og höfuðstærðin mæld (60 cm) og húfa pöntuð frá P. Eyfeld. Eftir vikulestur af speki eldri lögreglumanna um það hvað ætti, mætti og mætti ekki þá fór maður í fyrstu gönguferðina niður Laugaveginn, feiminn og fannst sem allir væru að horfa á þennan nýgræðingsslána. Þar sem ég var staddur nálægt Liverpool heyrði ég köll og blístur og sá þá stelpnahóp hinum megin götunnar og gerði mér grein fyrir því að þetta væri ætlað mér þar sem ég gekk ákveðnum en hægum skrefum (eins og mér hafði verið kennt). Ég þóttist ekkert sjá eða heyra og horfði stíft á leikföngin í glugganum og gekk á stöðumæli. Næstu helgi í Hollywood mætti ég svo þessum sömu dömum, nú með blásið hár og kinnalit og fékk dans í sárabætur.

Sjálfsvíg í návígi

Svo var mér kippt niður á jörðina og inn i raunveruleika sorgar og missis. Við vorum þrír sendir í sjálfsvíg. Ungur maður, sem ég hafði rætt við örfáum dögum áður, hafði hengt sig. Návígi við sjálfsvíg er svo allt öðruvísi og grimmara en það sem fólk sér í krimmaþáttum á skjánum. Raunveruleg snerting við dauðann, að sjá hann svo nærri sér, að sjá og heyra sorgina, geta ekki komist út úr aðstæðunum, geta ekki slökkt á sjónvarpinu, geta ekkert gert, það er allt annað og erfiðara fyrir óharðnaðan unglingsstrák með strípur og óljósa karlmennskudrauma. Ljúf myndin af dansinum á ljósagólfinu var horfin og grátt þrútið og afmyndað andlit komið í staðinn.

Félagi minn til margra ára deildi eitt sinn með mér aukavakt. Hún var tíðindalítil framan af nóttu og við ókum um austurborgina (þetta var á þeim tíma þegar eknir km voru ekki mældir og takmarkaðir vegna fjárskorts). Hann fór að rifja upp mál sem við höfðum áður lent í og mér til hrellingar þá uppgötvaði ég að ég mundi ekki eftir málum sem hefðu átt að vera mér ljós í minni, alvarlegum málum. Var ég farinn að tapa minni, var ég að verða seníll fyrir fertugt? Ég fékk skýringuna frá fagaðila mörgum árum síðar; sem sagt heilinn í mér gerði einungis það sem hann gat til að vernda mig gegn yfirflæði af erfiðum minningum. Þarna hafði ég starfað á götunni í um 15 ár og fjöldinn af sjálfsvígum, dauðsföllum, nauðgunum, brotum gegn börnum, slysum og öðru svo ljótu að það á ekki heima á prenti var einfaldlega þá þegar orðinn of mikill. Síðan eru liðin önnur 15 ár og það var ekki fyrr en fyrir um þremur árum, eftir erfiðari reynslu en ég höndlaði einn og með fjölskyldunni (eða var ég kannski orðinn veikari fyrir), að ég leitaði til sálfræðings og það var sem opnað væri fyrir krana af minningum og ég steig aðeins léttari út. En það er aðeins ákveðið mikið sem sálfræðingur getur gert og það er aðeins ákveðið mikið sem fjölskyldan getur tekið við, fjölskyldan sem oft gleymist í umræðunni um störf lögreglumanna. Skíturinn situr að mestu eftir.

Allt það ljóta kom fram á eftirlaunaaldri

Ég ræddi við fyrrverandi félaga minn í lögreglunni fyrir skemmstu og mér brá aðeins við er ég fékk svarið við spurningunni hvort það væri ekki ljúft að vera kominn á eftirlaun. Hann leit á mig hugsi og svaraði svo eftir nokkurt hik, „Nei“. Hann saknaði félaganna, hann saknaði þess að vera ekki lengur hlekkur í þessari einingu, hann væri ekki lengur gildur þjóðfélagsþegn og væri ekki að gera neinum gagn. En það versta er, sagði hann, að draugarnir koma núna þegar ég hef tíma til að hugsa. Allt það ljóta sem ég sá, öll hræðslan sem ég afneitaði þá og allur vanmátturinn, hann kemur núna og lætur mig ekki í friði. Þetta er helst á nóttinni og ég hef ekki lengur konuna til að leita til og deila með þessum hroða.

Ég var spurður af nemendum mínum á fyrstu dögum þeirra í Lögregluskólanum hvað væri það erfiðasta sem ég hefði upplifað. Þau vildu heyra reynslusögur frá gamlingjanum og auðvitað fá smápásu frá leiðinlegum upplestri af glærunum. Ég stóð mig að því að þurfa að velta þessu fyrir mér, hafði ekki gert það áður. Ég komst svo að því og sagði þeim eins og var. Það eru ekki öll ljótu dauðsföllin, lyktin af rotnun, allt blóðið, afmyndaðir líkamar, öskrin og átökin. Jú málin þar sem börn og konur sem hafa þurft að þola ofbeldi, jafnvel til margra ára, kynferðislegt, andlegt og líkamlegt, vanrækslu og kúgun, þetta er engum manni hollt til langs tíma. Það er ekkert sem er erfiðara en einmitt þetta. Og ef þið bara vissuð hvað þetta er víða og að þetta er allt í kringum ykkur. Þið sjáið þetta ekki, lögreglumenn sjá þetta. Í þau fáu skipti þar sem maður nær að vinna gagn þá er það jú gefandi en eftir situr, jafnvel þá, eilítið sár á sálinni sem svo bara stækkar með tímanum. Í bókinni BlackElkSpeaks segir sögumaður frá því hvernig hjartað í manninum virkar; í hjartanu er steinn með hvassar eggjar og við hverja sorg og við hverja erfiða reynslu þá snýst hann einn hring og særir hjartað að innan. Þetta er svolítið þannig.

Erfitt að tala um hræðsluna

En svarið við spurningunni sem kom mér á óvart var að það voru öll málin þar sem ég fann til vanmáttar og hræðslu, þar sem ég fann engar leiðir til að leysa úr málum og þar sem ég óttaðist um líf mitt og þeirra sem stóðu mér við hlið, það voru málin sem sátu helst eftir og voru ekki síður erfið. Það sem gerði þetta enn grimmara var að það var, og er jafnvel enn, ekki ásættanlegt að lögreglumenn finni til vanmáttar og hræðslu á vettvangi, enn síður að þeir sýni það og allra síst að þeir tali um það. Ég sá að þau skildu þetta fæst þá en ég óttast að þau skilji þetta öll í dag, tveimur árum síðar.

Það sem gerir mig nokkuð vissan um einmitt þetta er sú staðreynd að í dag er búið að skera svo inn að merg og beini að eftir standa allt of fáir misharðnaðir einstaklingar hverja vakt. Þegar ég hóf störf í almennri deild löggæslu töldum við, í Reykjavík einni, á fjórða tug lögreglumanna á hverri vakt á aðalstöðinni og úthverfastöðvum, vaktsvæðið taldi um níutíu þúsundir. Í dag er þessi fjöldi á höfuðborgarsvæðinu öllu, allt frá Hvalfjarðarbotni að varðsvæði Suðurnesja, um 20 á hverri vakt en þetta varðsvæði telur tvöfaldan fjölda. Um tvöfalt fleiri ökutæki eru í umferð. Það sem var ekki þá en er nú, er bæði útbreidd neysla harðra fíkniefna og öll þau ljótu mál er tengjast þeim. Á níunda áratugnum, voru dópgrenin örfá og helst í miðborginni. Þar var að finna hassmola og pípu og húsráðendur í fæstum tilfellum að gera nokkrum mein. Nú skipta grenin, og þá þar með talin „heimili“, hundruðum og eru dreifð um allt og ekkert hverfi undanskilið. Eymdin er oft ólýsanleg og allt of oft börn fórnarlömbin, þá á ég bæði við börn foreldra sem eru í neyslu sem og barnunga neytendur. Ofbeldið í dag er meira, það er grimmara. Hér áður þekkti hver lögreglumaður þessa fáu virku brotamenn með nafni og þeir okkur með nafni, þeir voru fæstir mikil ógn við okkur og í þeim tilfellum þegar okkur var ógnað, eða á okkur ráðist, höfðum við mannaflann til að bregðast við, oftast.

Reynslulítil en þurfa að taka skjótar ákvarðanir

Ég segi hér að ofan misharðnaðir. Það sem ég á við er að í dag verða lögreglumenn sem hafa eins til tveggja ára reynslu á götunni að bregðast við sem stjórnendur á vettvangi. Þeir þurfa að taka skjótar og erfiðar ákvarðanir sem geta varðað líf fólks, mikla hagsmuni þess og öryggi á sekúndum. Þeir þurfa að vaða inn í aðstæður vitandi að þeir eru að setja sig í raunverulega hættu, vitandi að það er enga aðstoð að fá ef illa fer. Þeir vita einnig að þessar ákvarðanir og gjörðir þeirra geta svo farið alla leið inn í dómsali þar sem lærðir menn og konur takast á um það hvort aðgerðir lögreglunnar hafi verið réttmætar eða ekki. Á meðan bíður lögreglumaðurinn og hugsar: var ég að gera rétt, vann ég skaða með ákvörðun minni, hefði verið hægt að bjarga, held ég starfinu mínu? Það er óttinn og óvissan í útkallinu, yfirþyrmandi aðstæður sem þú veist ekki hvort þú ráðir við og svo allt sem á eftir kemur og situr í þér í mörg ár eða dúkkar upp þegar þú situr á mögrum lífeyri í bakgarðinum, ef þér hefur auðnast að eignast slíkan, sem er það erfiðasta.

Of mikil ábyrgð á of fáum herðum

Skaðinn sem þetta getur valdið lögreglumanni er að – jafnvel eftir eitt erfitt mál sem var honum ofviða – það verði til þess að hann brenni út. Hann getur flosnað upp úr starfi. Starfi sem hann dreymdi um að sinna, starfi sem hann ætlaði að gera að ævistarfi. Við það að lenda endurtekið í viðlíka málum getur þú verið nokkuð viss um að jafnvel hörðustu naglar bogna, fara að finna til kvíða og streitu. Naglinn þrjóskast áfram og kvíðinn verður að hræðslu og streitan verður líkamleg og sviptir þig svefni og framundan er enn önnur vakt. Metnaðarfullum, hæfileikaríkum og samviskusömum einstaklingum sem mættu með draumana eina til vinnu er gert að starfa á lágmarkslaunum við aðstæður sem eru engum boðlegar. Þegar ég segi aðstæður þá á ég ekki við öryggisbúnaðinn, lögreglubifreiðarnar og tölvurnar. Ég er að tala um of mikla ábyrgð, á allt of fáum og ungum herðum, of mikið álag, of margar vinnustundir, grimmt umhverfi og grimmilega lág laun. Það sorglega er að það mætti lágmarka líkurnar á þessum skaða með auknum mannafla, aukinni menntun, auknu fjármagni til lögreglu og hærri launum sem myndu þá gera lögreglumanninum kleift að framfleyta sér á mannsæmandi launum án þess að standa erfiðar vaktir nánast linnulaust ár eftir ár.

Ég veit ekki hvort ég hefði höndlað eftir eitt til tvö ár í starfi það þegar ég og félagi minn ókum fram á stúlkubarn í náttkjól einum fata í myrkri og kulda eitt á gangi. Það hafði nágranni séð til hennar og hringt í lögreglu. Hún var dofin af kulda og öll dofin, eða öllu heldur frosin. Hún hafði komist út frá ölvuðum stjúpa sem hafði reynt að beita hana kynferðislegu ofbeldi hana, hún var með áverka á upphandleggjum þar sem hann hafði reynt að halda henni. Ég man ekki mikið meira eftir þessu máli, sjálfsagt best þannig.

Ég veit svo ekki hvort ég hefði höndlað og náð að klára mínar skyldur sem stjórnandi á vettvangi þar sem piltur hafði rekist á bifreið sem hann mætti í myrkri og slæmu skyggni. Ég hélt í höndina á honum þegar hann var deyjandi. Við töluðum saman, ég man ekki um hvað. Ég þekkti þennan pilt. Ég fann ekki fyrir láréttri slyddunni, kuldanum, skynjaði ekki tímann. Stjórnunin kom svo af sjálfu sér og þar kikkaði inn reynslan. Vettvangurinn var víðfeðmur, flókinn og erfiður, lokanir, aðstoð við slökkvi- og sjúkralið, stjórnun á lögreglumönnum, upplýsingaöflun og miðlun, umferðarstjórnun, fjarskipti og svo var það baráttan við tímann, að ná til foreldra hans áður en fjölmiðlar næðu að birta fréttina. Ég ræddi svo, mánuðum síðar, við foreldra þessa góða pilts og ég held að það hafi verið bæði þeim og mér mikilvægt. Sorgin verður ætíð þeirra og minningin mín.

Margar góðar minningar

Minningarnar eru þó margar góðar, maður eignast trausta vini sem endast ævilangt, vini sem þú þekkir svo vel því þið hafið reynt svo margt er opinberar hverjir þið eruð. Þið deilið sameignlegri reynslu og gerið þannig minninguna aðeins léttbærari. Vorum við ekki örugglega að gera það sem við gátum? Hvað ætli verði um stúlkuna?

Í dag eftir 30 ár fæ ég borguð laun sem duga til að framfleyta mér og dóttur minni og þá er ég á núlli um hver mánaðamót þegar best lætur. Reynslan hefur kennt mér að mestar líkur eru á því að ég verði á þessum launum allt til enda, eftir 13 ár. Ég er hættur að vona, vonbrigðin verða þá minni.

Eða nei, ég trúi því að kraftaverkið geti gerst, að einhver augu sem ráða opnist.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert