Allir hæstaréttardómarar vanhæfir

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Allir dómarar Hæstaréttar verða vanhæfir þegar kemur að því að dæma í máli Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, gegn Karli Axelssyni, fyrrverandi lögmanni Kára og núverandi hæstaréttardómara. Þetta staðfestir Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar, við mbl.is.

Kári stefndi Karli vegna þóknunar sem úrskurðarnefnd Lögmannafélagsins kvað upp að Karl ætti að fá greidda fyrir störf sín fyrir Kára. Voru störf Karls vegna dómsmála Kára vegna framkvæmda við hús hans við Fagraþing í Kópavogi. Deildu Kári og verktakar um greiðslur vegna framkvæmdanna.

Nokkur fordæmi undanfarin ár

Áður hafa komið upp sambærileg mál, t.d. þegar Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, höfðaði mál gegn Þorvaldi Gylfasyni prófessor og þegar Lánasjóður íslenskra námsmanna krafði Viðar Má Matthíasson hæstaréttardómara um að hann uppfyllti skyldur sínar sem ábyrgðarmaður. Í fyrra málinu var Þorvaldur sýknaður af kröfu Jón Steinars og í seinna málinu var Viðar sýknaður af kröfum LÍN.

Þorsteinn segir að í þessu tilfelli verði skipaður sérstakur dómari í forsæti málsins sem Hæstiréttur tilnefnir. Hann velji sér svo meðdómara.

Símon Sigvaldason vanur forsætinu

Í báðum fyrrnefndum málum tók Símon Sigvaldason, héraðsdómari og formaður dómstólaráðs, sæti í forsæti. Í máli Jóns Steinars valdi hann með sér héraðsdómarana Ásmund Helgason og Ragnheiði Harðardóttur. Í máli Viðars valdi hann með sér Sigurð Tómas Magnússon prófessor og Skarphéðin Þórisson, fyrrverandi ríkislögmann.

Þorsteinn segir að í málum sem þessum geti verið horft til þess að skipa núverandi eða fyrrverandi héraðsdómara, lagaprófessora við háskólana eða lögmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert