Átti aðeins miða aðra leið

Leið unga mannsins lá til Hafnar í Hornafirði.
Leið unga mannsins lá til Hafnar í Hornafirði. Sigurður Bogi Sævarsson

Flori­an Maurice Franco­is Cendre keypti aðeins miða aðra leið þegar hann kom hingað til Íslands frá Frakklandi í byrjun október á síðasta ári. Daginn eftir að hann kom til landsins flaug hann til Hafnar í Hornafirði og gekk síðar upp í Laxárdal í Nesjum. Vitni sá til mannsins ganga inn dalinn. 

Fátt þykir benda til þess að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað í dalnum þegar ungi maðurinn lést. Lögregla bíður enn niðurstöðu krufningar. Göngufólk fann líkamsleifar Cendre 18. ágúst sl. Ef hann hefur látið lífið fljótlega eftir að hann gekk upp í dalinn í byrjun október á síðasta ári er ljóst að líkið lá úti í tæpt ár en það farið að láta á sjá þegar það fannst.

Lögregla á Suðurlandi óskaði eftir upplýsingum um ferðir mannins í byrjun september. Ekki bárust margar vísbendingar en nú liggur fyrir að vitni sá Cendre ganga einan í átt að Laxárdal. Lögregla ræddi einnig við starfsfólk hótelsins í Reykjavík þar sem ungi maðurinn dvaldi en skilaði það engu.

Þá hefur lögregla einnig rætt við fjölskyldu mannsins í von um að komast að því hver tilgangur ferðar mannsins hingað til lands hafi verið. 

Vilja ekki veita upplýsingar um leitina

Samkvæmt heimildum mbl.is fór aldrei fram formleg leita að unga manninum. Svipast var um eftir manninum eftir að lögregluyfirvöld í Frakklandi höfðu samband við lögreglu vegna málsins.

mbl.is sendi fyrirspurn til ríkislögreglustjóra í lok ágúst þar sem meðal annars var óskað eftir upplýsingum  um hvernig staðið var að leitinni að manninum hér á landi og hvenær beiðni um aðstoð hafi borist frá Frakklandi.

Hjá ríkislögreglustjóra fengust þau svör að málið væri í lögreglurannsókn og ekki yrði upplýst um einstök atriði innan úr rannsókninni á meðan á henni stendur.

Florian Maurice Francois Cendre.
Florian Maurice Francois Cendre. Ríkislögreglustjóri
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert