Blönduð byggð við útvarpshúsið

„Mikilvægur áfangi náðist í fjárhagslegri endurskipulagningu Ríkisútvarpsins í dag þegar skrifað var undir kaupsamning milli RÚV og einkahlutafélags með ábyrgð Skuggabyggðar ehf. um byggingarrétt á lóð við Efstaleiti 1,“ segir í fréttatilkynningu frá Ríkisútvarpinu. Þar segir ennfremur að heildarávinningur sölunnar sé áætlaður a.m.k. 1,5 milljarðar króna en hann ráðist af endanlega staðfestu deiliskipulagi svæðisins.

„Til stendur að byggja upp blandaða byggð á svæðinu. Kaupendur skiluðu inn tilboði sem stjórn RÚV mat það hagstæðasta í söluferlinu. Í kjölfar þess voru hafnar viðræður sem lýkur nú með samþykkt stjórnar RÚV á samningnum og undirritun hans. Kaupsamningurinn um byggingarréttinn er gerður með fyrirvara um frágang fjármögnunar kaupanna, nánari útfærslu á tilteknum þáttum í skipulagi svæðisins og að ráðstöfunarheimild Ríkisútvarpsins yfir lóðarréttindunum verði staðfest með ákvæði í fjáraukalögum fyrir árið 2015.“

Ennfremur segir að ávinningur Ríkisútvarpsins verði nýttur til þess að greiða niður skuldir félagsins. „Á síðastliðnu ári hefur staðið yfir víðtæk fjárhagsleg endurskipulagning á starfsemi RÚV. Fyrr í haust var birt árshlutauppgjör sem staðfesti jákvæðan viðsnúning í rekstri félagsins og að hagræðingaraðgerðir síðasta árs hafa skilað sér. Afkoma síðustu tólf mánaða samanborið við afkomu síðasta rekstrarárs félagsins frá 1. september 2013 til 31. ágúst 2014 staðfestir enn frekar þann viðsnúning sem orðið hefur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert