Engir landamæraverðir í Leifsstöð komi til verkfalls

Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Allir landamæraverðir sem starfa við vegabréfaeftirlit í Flugstöð Leifs Eiríkssonar leggja niður störf á fimmtudaginn komi til verkfalls SFR. Að sögn upplýsingafulltrúa Isavia, Guðna Sigurðssonar, er landamæraeftirlið unnið af landamæravörðum annars vegar og lögreglu hinsvegar.

„Allir landamæraverðir leggja niður störf en lögregla sinnir samt áfram afgreiðslu. Hún verður samt eitthvað hægari,“ segir Guðni í samtali við mbl.is. Á föstudaginn varð talsverð seinkun við landamæraafgreiðslu á flugvellinum þegar stór hluti lögreglumanna tilkynnti forföll vegna veikinda. Guðni segist ekki hafa heyrt af því að lögreglumenn ætli aftur að boða til forfalla á föstudaginn.

Fyrri frétt mbl.is: Klukkutíma bið eftir vegabréfsskoðun

„En ef það eru engir landamæraverðir og lögregla boðar forföll lokast fyrir umferð til Bretlands og Bandaríkjanna. Það er enginn þriðji aðili sem gæti sinnt þessum störfum,“ segir Guðni. 

Guðni segir að á föstudaginn hafi fólk á leið til Bretlands og Bandaríkjanna þurft að bíða við vegabréfaeftirlitið í hálftíma til klukkutíma. Hann gerir ráð fyrir því að tafirnar verði svipaðar leggi landamæraverðir niður störf.

Aðspurður hvort mælt sé með því að fólk mæti fyrr á völlinn á fimmtudag og föstudag sé það á leið út af Schengen-svæðinu segir Guðni að staðan verði tekin þegar vitað sé að af verkfallinu verði. „Þá setjum við upplýsingar inn á heimasíðuna okkar. Þá vitum við líka betur hvernig fyrirkomulagið er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert