Fordæmi ráðningarinnar frá fyrra kjörtímabili

Ragnheiður Elín Árnadóttir, sagði fordæmi fyrir ráðningunni að finna frá …
Ragnheiður Elín Árnadóttir, sagði fordæmi fyrir ráðningunni að finna frá fyrra kjörtímabili. Photo: Rósa Braga

Horft var til fordæma frá fyrra kjörtímabili þegar Hörður Þórhallsson var ráðinn framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála nýverið. Þetta sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á Alþingi í dag.

Horft til fordæma fyrri ríkisstjórna

Ragnheiður var spurð út í stöðu þessa nýja embættis innan stjórnsýslunnar og út í ráðningu Harðar, en staðan var ekki auglýst og hann var ráðinn til 6 mánaða, þótt verkefnið væri til fimm ára. Sagði hún að það hafi fyrst og fremst verið vilji ráðuneytisins að láta þetta verkefni komast af stað, ekki síður en hjá Samtökum ferðaþjónustu, sem sé samstarfsaðili þeirra í málinu.

Hún sagði að við ráðninguna hafi verið horft til fordæma frá síðasta kjörtímabili, t.d. þegar forstöðumaður Inspired by Iceland herferðarinnar hafi verið ráðinn tímabundið og svo hafi sá samningur verið framlengdur reglulega.

Segir ráðninguna taka athygli frá því sem skipti máli

Í fréttum hefur komið fram að Hörður fái tæplega tvær milljónir í laun á mánuði og gagnrýndi Katrín að staðan hefði ekki verið auglýst. Spurði hún ráðherra hvernig henni dytti í hug að gera greininni það að ráða forstöðumann, án auglýsingar, með tvær milljónir á mánuði, sem taki alla athygli frá því efnislega, en hún bætti við að þarna væri loksins komin fram skýr sýn í málinu og fagnaði því.

Ferðamálastofa og Íslandsstofa enn með sín hlutverk

Katrín bað Ragnheiði einnig að skýra hvort að þetta nýja embætti kallaði á að Ferðamálastofa, Íslandsstofa eða Rannsóknarmiðstöð ferðamála yrðu aflögð, nú þegar ný stofnun hefði verið stofnuð. Ragnheiður sagði þetta ekki vera nýja stofnun, heldur samstarfs- og samráðsvettvang. Sagði hún ástæðu þess að þetta væri sérstaklega stofnað í stað þess að setja verkefnið undir fyrrnefndar stofnanir væri sú að í dag væru verkefnunum dreift víða og þarna væri hægt að ná utan um þau á einn stað. Sagði Ragnheiður að stofnanirnar myndu enn gegna sínum hlutverkum.

Katrín benti þá á að í dag væru fulltrúar frá tveimur ráðuneytum, atvinnulífinu og fleirum í Ferðamálastofu. Hún teldi því þetta nýja embætti vera dæmi um að verið væri að dreifa kröftum á fleiri stöður, þar sem aðilar úr sömu áttum væru fyrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert